Helga Lilja Magnúsdóttir lagði hið geysivinsæla Helicopter fatamerki á hilluna árið 2017. Aðspurð segir hún ástæðuna margþætta. „Hitt merkið mitt er Heritage, þar sem ég vinn alltaf með sama mynstrið.“ Hún segir hönnunarþörfina hreinlega hafa öskrað á sig fyrir tveimur árum. „Þá virkilega fann ég að ég varð að koma með Helicopter til baka.“

Tattúvélin tekin upp í partíi

Kveikjan að nýju línunni var símtal frá vinkonu Helgu Lilju. „Hún hafði verið í gleðskap kvöldið áður og sagði: Guð minn góður, ég fór á svo brjálæðislega réttum tíma úr þessu partíi, þremur mínútum áður en tattú-vélin var tekin upp,“ segir hún og hlær. Helga Lilja lýsir því að nokkrir einstaklingar hafi vaknað með húðflúr á líkamanum eftir kvöldið og hún hafi séð ljósmynd af slíku flúri.

Fyrirsætan klæðist galla úr silki með útsaumi.
Mynd/Atli Þór Alfreðsson

„Ég ætla ekki að segja hvaða flúr þetta er, en það er í línunni. Ég fékk þetta flúr fullkomlega á heilann og í tvo mánuði pældi ég eiginlega ekki í neinu öðru. Ég áttaði mig á því að ég varð að gera eitthvað við þetta.“

Helga Lilja fór því á stúfana og spurði manneskjuna sem bar flúrið hvort að hún mætti vinna með það. Það var auðsótt mál. Í framhaldinu kviknaði neisti hjá hönnuðinum. „Þá fór ég í huganum að fara yfir gömul tattú sem ég hef séð í gegnum tíðina.“

Undarlega stór ákvörðun

Helga Lilja kveðst sjálf vera óflúruð en segist alla tíð hafa haft mikinn áhuga á tattúum. „Ég skil ekki hvernig fólk getur tekið ákvörðunina um að setja tattú á líkamann sinn. Ég á erfitt með að ákveða hvað á að vera í kvöldmat og í hvaða fötum ég á að vera,“ segir hún. „Og stundum finnst mér ég skrýtin í því sem ég ákveð að klæða mig í.“

Hún segir að hér sé um að ræða ákvörðun um að setja eitthvað á líkama sinn sem endist lengur en manneskjan sjálf inni í líkamanum. „Það er bara ótrúlegt,“ segir hún, en bætir við að fyrirbærið fylli hana innblæstri á sama tíma.

Helga Lilja segir áhugaverðustu tattúin að sínu mati þau sem gerð séu með „stick and poke“ aðferð í hita augnabliksins, umfram þau sem stefnt hefur verið að með löngum fyrirvara.

Nýja línan var ljósmynduð í Aþenu fyrr á árinu.
Mynd/Atli Þór Alfreðsson

Stefnir á að stækka

Hún segir viðbrögðin hafa verið jákvæð þegar hún falaðist eftir notkun flúranna í verkefninu, aðeins einn hafi afþakkað þátttöku. „Ég veit ekki hvort að þeir sem játtu því að vera með í þessu verkefni viti almennilega hvað það gengur út á,“ segir hún sposk. „En ég gerði heila línu út frá húðflúrum á líkömum kunningja og vina minna.“

Aðspurð hvort að teiknararnir eða tattúlistafólkið sé „krediterað“ sérstaklega svarar hún að svo sé ekki á þessum tímapunkti.

Helga Lilja segist einbeita sér að einföldum sniðum og leiki sér í staðinn meira með mynstur.
Mynd/Atli Þór Alfreðsson

„Ég hugsaði út í að þetta myndi vera verkefni sem yrði miklu stærra. Að ég myndi í rauninni bara gefa út bók með fólkinu. Ég veit að ég má segja það, að Hildur Guðna er með eitt af tattúunum, hún er vinkona mín,“ segir Helga Lilja. Ótrúlega gaman gæti verið að stækka verkefnið en hún ætli að einbeita sér að fötunum fyrst um sinn.

Hún segir eldri útgáfur Helicopter-merkisins hafa gengið út á digital-prentun að stóru leyti. „Þetta snýst mikið um litagleði og mynstur. Mér finnst fara mínum líkama best að vera í einföldum sniðum, kassa­sniðum úr þungum fallegum efnum. Beinum buxum og t-shirtum. Það fer mínum líkama best,“ segir hún. Því vinni hún út frá þeim einföldu sniðum, en leiki sér þá í staðinn með mynstrin.

Hönnuðurinn segir um nýju línuna hafa gert nákvæmlega það sem hana sjálfa langaði til, í þetta sinn.
Mynd/Atli Þór Alfreðsson

Glimmerprent og útsaumur

Í nýju línunni eru þrjár flíkur digital-prentaðar. En Helga Lilja notast einnig við glimmerprent sem hún segir glitra eins og yfirborð sjávarins í sólinni. „Það er alveg bilað,“ segir hún. Þá sé mikið um útsaumuð mynstur í nýju línunni. „Af því að tattú eru gerð með nál. Í anda þess er ég með aðalflík, silkisett, sem er kveikjan að þessu öllu saman. Það er úr brjálæðislega fínu silki-satín efni og svo eru öll tattúin „embroiduð“ á gallann.“

Helga Lilja segist hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að gera aðeins það sem hana sjálfa langaði að gera, í þetta sinn. „Þetta endurspeglar minn stíl. Ég var aðeins farin að sigla frá honum þarna undir endann og það var ein af ástæðum þess að ég þurfti aðeins að hvíla mig,“ segir hún, en hún segist hafa gefið út síðustu Helicopter-línuna fram að þessu árið 2017.