Þriggja manna tal þeirra Haraldar Eiríkssonar, leigutaka Laxár í Kjós, Sigurðar L. Hall, brytans í veiðihúsinu og Björns Roth myndlistarmanns gat af sér geggjaða hugmynd sem verður að veruleika á föstudaginn þegar myndlistartríóið Léttfeti opnar sýninguna Léttfetar á bökkum Laxár í Kjós.

Léttfetarnir eru auk Björns, þeir Jón Óskar og Kristján Steingrímur Jónsson, sem allir eru næstum jafnvígir á stöngina og penslana. „Nú fer allt á hliðina,“ sagði Jón Óskar á Facebook þegar hann bauð á sýninguna á Facebook og líklega má til sanns vegar færa að tilefnið til þess að skreppa upp í Kjós sé ærið þegar þessir þrír eru á einni og sömu sýningunni með sjálfan Sigga Hall sem sýningarstjóra.

„Þetta eru hörkumenn. Þetta eru skemmtilegir myndlistarmenn og þetta verður skemmtilegur dagur,“ segir matreiðslumeistarinn Siggi Hall um opnun sýningarinnar á föstudaginn en þremenningarnir gerðu hann einróma og einhliða að sýningarstjóra.

„Ég réði engu með það. Þetta eru nú allt strákar sem ég hef þekkt í mörg ár og ég kalla góða vini mína,“ segir Siggi þegar hann er spurður hvað komi til að brytinn í Veiðihúsinu sé orðinn sýningarstjóri.

„Þeir sögðu bara: „Þú ert sýningarstjóri og þú svarar fyrir allt.“ Og ég sagði: „Nú, ja hérna.“ Þeir sögðu að ég gæti þetta alveg,“ segir Siggi, sem efaðist ekkert um að mat myndlistarmannanna væri rétt.

Sigga Hall munaði ekkert um að við sig nafnbót sýningarstjóra Léttfetanna sem sóttu myndina á boðskortið ekki yfir ána og smelltu þessari af leiðsögumanni sem hangir í Veiðihúsinu. Mynd/Aðsend
Mynd/Aðsend

„Þannig að núna er ég voðalega ánægður með mig sem sýningarstjóri myndlistarsýningar. Heitir það ekki kúrator?“ spyr Siggi og hlær sínum kunna hlátri.

Mississippi rennur í Laxá

„Þetta er myndlistarhópurinn Léttfeti og þeir eru nefnilega alveg bráðskemmtilegir og út af fyrir sig eru þeir bara eitt skemmtiatriði,“ segir Siggi þegar hann útskýrir yfirskrift sýningarinnar. „Hún heitir sko Léttfeti á bökkum Laxár eftir bók sem Jón Óskar var mjög hrifinn af sem strákur og heitir Léttfeti á bökkum Mississippi.

Þarna er hátt til lofts og jafnvel vítt til veggja þótt það sé nú voða mikið gluggar og áin rennur fyrir neðan niður í mót og svo er útsýnið út eftir Kjósinni og Hvalfirðinum. Þetta er allt voðalega svona ídealt og fallegt,“ segir Siggi um myndrænt umhverfi veiðihússins sem henti þannig vel til listaverkasýninga.

Hugmyndina að sýningunni segir Siggi hafa þróast þegar fornvinur hans, Björn Roth, og Haraldur Eiríksson hafi rætt veggskreytingar veiðihússins í kjölfar breytinga sem gerðar voru þegar Haraldur tók ána á leigu.

Laxveiðilistamenn

„Hann Halli Eiríks er framarlega í þessum stangveiðiheimi á alþjóðavísu og veiðihúsið var svona aðeins tekið í gegn að innanverðu og sett í stílinn. „Ég er bryti þarna yfir veiðihúsinu og við Björn erum nú old friends og hann spyr hvort það eigi ekki að setja einhverjar myndir á veggina í samráði við Halla.

Þegar við erum svo þrír að tala um þetta stingur Björn upp á því að hann fái með sér fleiri myndlistarmenn sem allir eru laxveiðimenn. Hann fær svo Jón Óskar og Kristján Steingrím með sér í þessari lotu og þeir svona sem sagt klæða veggina með sýningu. Þetta er svo sérstakt umhverfi og það er náttúrlega partur af þessu, að geta sýnt í þessu sérstaka umhverfi,“ segir Siggi, sem bíður spenntur eftir að sjá lokaútkomuna þegar Léttfetarnir klára að hengja upp.

Siggi sulluveiðari

„Ég er bara svona sulluveiðari,“ segir Siggi þegar hann er inntur eftir eigin veiðiáhuga. „Mér þykir ágætt, stundum, ef ég hef tíma, tækifæri til þess og allt það að fara stundum út með stöngina mína og kasta flugunni eitthvað og á nú alveg til að setja í einn og einn fisk og svona.

Ég fer líka í svona laxveiðitúra, nokkra daga, með góðum vinum sem eru oft náttúrlega bara skemmtiferðir. En ég er ekki með neina dellu. Ég er laus við það,“ heldur Siggi áfram og virðist prísa sig sælan.

„Menn eru bara sumir veikir og geta ekkert annað en bara verið einhvers staðar í veiði. Svo eru menn náttúrlega misgóðir. Ég er enginn frækinn veiðimaður heldur, en ég svona, jújú, næ stundum einum og einum. Ég er aldrei í kappi, sko, en ég kann vel við mig í þessum heimi.“

Öll vötn falla í Kjósina

Siggi segir Kjósina og Laxána þar hafa reynst ákveðna merkingarmiðju tilveru hans og eins og allir vegir þaðan leiði hann þangað aftur. Hann bjó og starfaði sem kokkur í Noregi þegar hann fékk upphringingu 1988.

„Þá var ég spurður hvort ég gæti verið í Kjósinni eitt sumar og eldað. Það passaði mér ágætlega og ég smellti mér í Kjósina og það endaði með því að ég var þar nokkur sumur í röð og flutti svo heim. Ég byrjaði í Kjósinni og þar byrjar allt saman.

Þar er ég ráðinn í sjónvarp og þar er ég ráðinn í hitt og þetta og síðan þegar ég er hættur að vinna þá er ég líka kallaður í Kjósina til aðstoðar og er núna bryti yfir matreiðslunni þar. Þetta er náttúrlega öðruvísi með matreiðsluna heldur en veiðina. Þar verð ég sko að koma við pottana,“ segir brytinn og nú sýningarstjórinn við Laxá í Kjós þar sem allt er að verða klárt fyrir opnun Léttfetanna föstudaginn 4. júní.