Tilfinningin að vera aftur eins og barn á jólunum að opna pakkann í von um að fá nýjasta tölvuleikinn á vel við þegar undirritaðir fengu á dögunum að prufa Playstation 5, nýjustu leikjatölvu Sony. Sannarlega kærkomið tækifæri til að fá í nokkrar kvöldstundir að gleyma öllu sem heitir kórónaveira og samkomutakmarkanir. Þetta eru óneitanlega kjöraðstæður til að sökkva sér aðeins ofan í fyrstu leikina sem komnir eru á markaðinn og þessi öflugasta vél Sony til þessa, var snögg að grípa mann.

Helstu framfarirnar liggja í vinnsluhraða vélarinnar og ef líkja má PlayStation 4 við reiðhjól, þá er PlayStation 5 rafmagnshjól. Hraðinn er meiri, vélin er stærri og upplifunin töluvert straumlínulagaðri. Þegar búið er að prófa rafmagnshjól er erfitt að reiða sig aftur á tvo fætur og má búast við að margir upplifi byltingu í þessum málum með nýju vélinni.

Undirritaðir eru báðir forfallnir PlayStation-menn – minnugir þess þegar fyrsta vélin kom út árið 1994 og eigendur allra vélanna til þessa. Síðan þá hafa mörg megabæt og pixlar runnið til sjávar og PlayStation 5 er ekki bara bókstaflega stærsta vélin hingað til, heldur stefnir útgáfa hennar líka í met.

Útlitið

Talandi um útlitið þá er tilfinningin sem fylgir því að fá PlayStation 5-pakkann í hendurnar engu lík. Ekki bara vegna spennunnar við að koma höndum á gripinn heldur einnig vegna þess hversu ákaflega þungur pakkinn er. Vélin er sú stærsta hingað til, töluvert stærri heldur en það sem eitt sinn var þekkt sem stærsta PlayStation-skrímslið hingað til; upprunalega PlayStation 3 vélin.

Það viðurkennist að við höfðum áhyggjur af því að vélin væri allt of stór. Hún er enda næstum á stærð við flugmóðurskip og þá mætti léttilega borða meðalmáltíð á yfirborði hennar. Hún tekur sig hins vegar merkilega vel út í sjónvarpshillunni og og kemur með álitlegum standi.

Tölvan getur ekki staðið í hinum algenga Besta sjónvarpsskáp frá Ikea sem er algeng sjón á fjölmörgum íslenskum heimilum, en hægt er að koma vélinni fyrir liggjandi þar sem sérstakur standur tryggir að vélin helst stöðug.

Í fyrsta sinn eru tvær útgáfur í boði, önnur alfarið án diskadrifs og Sony fær hrós fyrir að hafa bætt við sérstökum ryksöfnurum inn í vélina sem eiga að auðvelda losun á rykinu sem safnast upp í vélinni. Margir sem eiga Playstation 4 kannast við að spila leikina á meðan rykug lætin sem koma úr tölvunni minna helst á hávaðann sem fylgir Airbus A380-vél.

Síðast þegar stærðin á nýjustu leikjatölvu Sony vakti slíka athygli brást fyrirtækið við með því að gefa út uppfærða tölvu sem tók talsvert minna pláss. Sú ákvörðun sló í gegn og skyldi því alls ekki útiloka að Sony endurtaki þann leik með þessa vél.

Sýnilegur munur á DualShock 4 og DualSense er ekki mikill, en þegar titringurinn byrjar skýrist þetta allt betur.

Vélbúnaðurinn

Hér er erfitt að drepa niður fæti. Við höfum spilað tvo leiki á vélinni; Astro's Playroom, sem fylgir með henni, og hinn margumtalaða Spider-Man: Miles Morales. Grafíkin er nokkuð betri en í PS4 Pro en það sem trompar hins vegar allt sem fyrir kemur er blessað vinnsluminnið í vélinni.

Maður fer inn og út úr leik á sirka 0,1 sekúndu. Það er enginn tími til að fylla á drykkina eða ná sér í gott snarl fyrir spilamennskuna. Munurinn frá því í PlayStation 4 er gífurlegur. Spiderman leikurinn er til að mynda risastór sandkassaleikur. Spilarar sem spiluðu fyrsta leikinn á PS4 muna ef til vill eftir nokkuð tíðum „loading skjám“ á milli atriða í leiknum.

Hér er ekkert slíkt að finna og upplifunin er í rauninni mögnuð. Þetta er framtíðin í leikjaspilun, það er nokkuð ljóst. Flugmóðurskipið skilar sínu og við bíðum spenntir eftir komandi tölvuleikjum, sem er ekki að finna á hverju strái eins og stendur. Tölvuleikjaframleiðendur eru rétt að byrja að nýta sér grafíkina sem PS5 býður upp á og verður fróðlegt að sjá stærstu nöfnin koma með nýja leiki á næstu árum þegar búið er að ná betur utan um þau ósköp öll sem PlayStation 5 býður upp á.

Fjarstýringin

Gamla DualShock nafnið er horfið að þessu sinni og fylgir hinn svokallaði DualSense stýripinni með PlayStation 5. Hér er haldið áfram með þá þróun sem byrjaði í DualShock 4 stýripinnanum og við erum með sérstakan snertiskjá í miðjunni, deilitakka vinstra megin og hægri takkinn heitir „Options“ en ekki „Start.“

Þá er stýripinninn líka massífari heldur en nokkur PlayStation-stýripinni hingað til. Ef farið er aftur til PS4 fjarstýringarinnar er hún þyngri en það gleymist fljótt og liggur fjarstýringin vel í hendi.

Áhugavert hristingskerfið teygir sig sömuleiðis hér út í takkana og hefur viðmótið í rauninni aldrei verið sérhæfðara fyrir þá upplifun sem er að finna í hverjum leik. Í stað venjubundins hristings, er hristingurinn stilltari, sérhæfður að þeirri upplifun sem þú finnur fyrir.

Harði diskurinn

Að niðurhala Call of Duty: Warzone tekur rúmlega 207 gígabæt af minni harða disksins og nýjasti leikurinn úr CoD-seríunni telur önnur 130 gígabæt. Harði diskurinn í PS5 er 852 gígabæt. Þegar tekið er tillit til stýrikerfisins eru það 667 gígabæt. Hér sér því hver maður að plássið er af alltof, alltof skornum skammti.

Í fyrri leikjatölvunni voru stærstu leikirnir að daðra við hundrað gígabæt og má búast við að þegar sandkassaleikir eins og Red Dead Redemption og Grand Theft Auto koma út, og eru byggðir á opnum heimi, taki þeir allt að þriðjungi af plássinu sem er í boði.

Utanáliggjandi harðir diskar verða sennilega skyldukaup með vélinni, sem er leitt því árið er 2020. Maður hefði haldið að Sony gæti betur, nú þegar diskadrif fylgir ekki einu sinni öllum vélum.

Samantektin

Það skal viðurkennast að þrátt fyrir að hafa átt fjórar PlayStation tölvur, og átt þá nýjustu í rúmlega 20 ár, var spennan fyrir þessari fimmtu viðbót ekkert sérstaklega mikil. Til að gleðja efasemdamenn eru áhyggjurnar þó óþarfar.

Hraðinn einn gerir það að verkum að PS5 er kærkomið stökk frá PS4. Alvöru tölvuleikjaspilarar munu ekki geta látið gripinn fram hjá sér fara en við viðurkennum að við bíðum spenntir eftir því að PlayStation 5 verði að litlum skemmtibát, í stað flugmóðurskips.

Vélin seldist upp undir eins í forsölu á Íslandi og eru PlayStation-aðdáendur margir tilbúnir að ganga það langt að kaupa forsölupantanirnar af öðrum einstaklingum. Vélin kostar áttatíu þúsund í stafrænni útfærslu og hundrað þúsund með diskadrifinu og eru fyrstu sendingarnar sem Sena fær allar uppseldar.

Það þýðir því ekkert annað en að bíða og vona að næsta sending komi innan skamms því vélin er svo sannarlega gripur sem tölvuleikjaspilarar ættu að næla í.