Gísli Örn Garðarsson leikur eitt aðalhlutverkið í Ex, öðru leikritinu í þríleik Mariusar von Mayenburg, sem Benedict Andrews leikstýrir og frumsýnt er í Þjóðleikhúsinu næsta laugardag. Ex er sálfræðidrama sem segir frá því þegar fyrrverandi kærasta bankar upp á hjá hjónunum Daníel og Sigrúnu seint um kvöld í von um gistingu.
„Við Nína Dögg leikum hjón og síðan biður fyrrverandi kærasta mín, sem er leikin af Kristínu Þóru, um að fá að gista, því hún er að skilja við kærastann sinn. Það eru aðstæður sem ég held að flestir, ef ekki allir, gætu sett sig inn í. Það er mikill undirliggjandi húmor í þessu og án þess að ég ætli eitthvað að fara að bera þetta saman við Ellen B. þá hallar þetta verk kannski í grátbroslegri áttir, þar sem inn í blandast þessi skyndilega óreiða í hjónabandinu og innbyrðis átök þeirra sem í hlut eiga,“ segir Gísli Örn.
Ex var frumflutt hjá Riksteatern í Svíþjóð 2021 en er núna sýnt sem annar hluti Mayenburg-þríleiksins og sjálfstætt framhald verksins Ellen B. sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu um jólin.
Þú ferð með hlutverk eiginmannsins Daníels, hvers konar karakter er hann?
„Hann er maður sem er í rútínu bæði í vinnunni og lífinu. Heimilishaldið og hjónabandið er í föstum skorðum með tilheyrandi deyfð og búið að vera mjög lengi. Svo gerist þetta klassíska, fortíðin kemur og bankar upp á og þá fokkast mögulega allt upp.“

Mótleikarar og hjón
Gísli Örn og Nína Dögg leika hjón í verkinu en eins og flestir vita þá eru þau hjón í alvörunni. Gísli Örn segir að það hafi engin áhrif á heimilislífið að leika á móti hvort öðru.
„Maður er náttúrlega búinn að vera að svara þessari spurningu í bráðum þrjá áratugi. Stundum falla verkefnin þannig að við deilum skjánum eða sviðinu og stundum líða mörg ár á milli.
Við útskrifumst úr leiklistarskólanum ákveðinn hópur og svo búum við til Vesturport á meðan við erum enn þá í skólanum og við höfum unnið jafn náið með þeim öllum, eins og Birni Hlyni, Ólafi Darra, Ingvari eða Víkingi. Manni líður eins og maður hafi verið hluti af þessu teymi síðan, þó svo að leiðir okkar hafi legið í allar áttir.“
Gísli Örn bætir því við að honum finnist mjög gefandi að leika á móti eiginkonu sinni þegar hann fær tækifæri til þess.
„Fyrir mér er það ekkert öðruvísi í sjálfu sér að vinna með Nínu – eða í raun hverjum sem er í bransanum. Þetta er lítill heimur og það mæta allir í vinnuna af sömu fagmennsku óháð einkalífinu. Og eins og þeir vita sem hafa leikið á móti Nínu þá er mjög gefandi að leika á móti henni, hún er frábær leikkona, og það sama gildir um Kristínu Þóru,“ segir Gísli Örn.
Fyrir mér er það ekkert öðruvísi í sjálfu sér að vinna með Nínu – eða í raun hverjum sem er í bransanum.
Beint inn í kjarnann
Með hlutverk gömlu kærustunnar sem bankar upp á fer Kristín Þóra Haraldsdóttir sem lék einnig með Gísla Erni og Nínu Dögg í sjónvarpsþáttunum Verbúðinni sem fönguðu athygli þjóðarinnar fyrir sléttu ári.
„Það er mjög gaman að leika á móti tveimur konum sem maður hefur leikið mikið með og þekkir vel. Þá er maður mjög fljótt búinn að ýta einhverju frá sér og getur farið bara beint inn í kjarna málsins og beint inn í hjartað á skepnunni án þess að þurfa eitthvað að vera að átta sig á hvort öðru. En auðvitað er ekkert hægt að alhæfa um neitt í þessu. Verkefnin eru alltaf svo ólík og fólkið líka, svo maður mætir bara opinn til leiks og segir helst bara já við öllum hugmyndum. Það er líklega kjarninn í þessu,“ segir Gísli Örn.
Gísli hefur unnið jöfnum höndum sem leikari og leikstjóri allt frá því hann útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 2001 og segir hann það alltaf skemmtilega áskorun að stíga á svið og einbeita sér að því að vera sviðsleikari.
„Ég hef náttúrlega ekki stigið á svið sem óbreyttur leikari í langan tíma. Þegar ég hef leikið á sviði, þá hefur það annað hvort verið eitthvað sem ég hef sett upp sjálfur eða haft áhrif á að setja upp. Ég held að þetta sé bara í fyrsta skiptið frá útskrift sem ég er ráðinn sem leikari sem hefur ekkert um neitt að segja. Þá vill maður náttúrlega gera það með svona frábærum einstaklingum eins og Nínu Dögg og Kristínu Þóru,“ segir hann.
Framhald af Verbúðinni
Höfundur Ex, Marius von Mayenburg, er Þjóðverji og eitt þekktasta leikskáld Evrópu um þessar mundir. Leikstjórinn, hinn ástralski Benedict Andrews, er einnig mjög virtur á alþjóðlegum vettvangi. Gísli kveðst hafa fylgst með verkum þeirra beggja en þetta er þó í fyrsta skipti sem hann fær tækifæri til að vinna með þeim.
„Maður hefur náttúrlega séð verkin hans Mariusar von Mayenburg frá því hann kom á sjónarsviðið. Svo með Benedict, hann er frá Ástralíu, og leiðir okkar hafa legið samsíða í mörg ár. Við vorum báðir listrænir meðstjórnendur hjá Young Vic leikhúsinu í London á sama tíma, en lentum alltaf einhvern veginn sitt á hvorum tímaásnum með uppsetningar. Þannig að við höfum vitað hvor af öðrum lengi en í raun aldrei hist almennilega, svo það var kominn tími til.
Ég var mjög til í þetta þegar Benedict bauð mér að vera með, enda er hann frábær listamaður og mjög gefandi leikstjóri,“ segir hann.
Hvað er svo næst á döfinni hjá þér, fá landsmenn að sjá framhald af Verbúðinni von bráðar?
„Næsti kafli Verbúðarinnar hefur verið í góðri gerjun hjá okkur, við erum búin að vera í mikilli heimildavinnu og erum að fara að setjast niður og klára að skrifa. Við erum mjög spennt yfir því.
Svo var ég að leikstýra tveimur þáttum í Exit, norsku sjónvarpsseríunni, sem eru að fara í loftið 1. mars. Það verður eitthvað, og svo verður vonandi meira um leikhúsverkefnin. Þar á jú hjartað alltaf sinn sess,“ segir Gísli Örn.