Hópur barna í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi heimsótti Borgarleikhúsið síðastliðinn sunnudag til að taka þátt í samveru og leiklistarsmiðju á vegum Leiklistarskóla Borgarleikhússins. Voru nær öll börnin að upplifa leikhús í fyrsta sinn á ævinni.

„Þau voru svo æðislegt og bara til í allt. Þeim fannst skemmtilegast að fara í spunaleik þar sem einn lék senu án orða og annar átti að leika eftir með hljóðum í hljóðnema. Það sló alveg rækilega í gegn,“ segir Emelía Antonsdóttir Crivello, skólastjóri Leiklistarskólans, í samtali við Fréttablaðið. Segir hún börn sem tilheyra þessum viðkvæma samfélagshópi skili sér síður í þetta nám og hafi því verið sérstaklega ánægjulegt að geta boðið þessum hópi barna á námskeiðið.

„Það er sorgleg staðreynd að það eru ákveðnir samfélagshópar sem hafa takmarkaðan aðgang að leikhúsi,” segir hún.

Það sem er magnað við leikhúsið er að það þurfa ekki allir að tala sama tungumálið til þess að spinna saman sögur og leika persónur.
Mynd: Borgarleikhúsið

Leiklistarskólinn setti saman námsefni sem hægt var að kenna án tungumáls byggt á skapandi verkefnum og leiklistarleikjum. Lögð var áhersla á líkamstjáningu og voru myndir prentaðar út sem sýndu aðstæður sem krakkarnir gátu leikið eftir eins og að vakna, bursta tennur og elda mat.

Krakkarnir fengu að máta búninga og leika á alvöru sviði með ljósum, reyk, hljóðnemum og tónlist. Einn strákur í hópnum fékk að velja tónlist til að spila og valdi hann fjörugt arabískt rapplag og var ljóst að allir krakkarnir þekktu vel til lagsins enda byrjuðu þau öll að syngja það.

Framtíðarleikarar: Börnin léku listir sínar á leiklistarnámskeiði í Borgarleikhúsinu.
Mynd: Borgarleikhúsið

Börnin sem heimsóttu leikhúsið og tóku þátt í námskeiðinu er öll á aldrinum 6 til 12 ára. „Í þessu tilfelli voru þau öll nema eitt að upplifa leikhús í fyrsta sinn á ævinni,“ segir Emelía og ítrekar mikilvægi þess að ná til fjölbreyttra hópa í samfélaginu. Það hafi verið mikill heiður fyrir Leikhúsið að bjóða börnin velkomin og fá að leika með þeim.

Leynast framtíðarleikarar Íslands í þessum hópi?

„Algjörlega, þarna voru fullt af hæfileikaríkum börnum. Persónusköpunin var svo fyndin og miklir húmorist í hópnum. Þau voru öll mjög áhugasöm og sum alveg sérstaklega áhugasöm, það væri æðislegt að sjá þau aftur í leiklistinni. Foreldrar hafa þegar spurt okkur hvenær það verði af þessu aftur og okkur langar mikið til að endurtaka leikinn.“