List í opinberu rými er hluti af daglegu lífi flestra borgarbúa. Oft fer fólk framhjá listaverkunum daglega án þess að velta þeim mikið fyrir sér. Þau eru bara hluti af borgarlandslaginu. En öll eiga listaverkin einhverja sögu sem getur verið áhugavert að kynna sér. Mörg útilistaverk úti í heimi hafa staðið á sama staðnum jafnvel öldum saman og verða mögulega þekkt sem tákn fyrir staðinn. Þar má meðal annars nefna Manneken pis, litla pissustrákinn í Brussel og risastóru Kristsstyttuna í Rio de Janero.

Fyrsta útilistaverkið á Íslandi var stytta af dansk-íslenska myndhöggvaranum Bertel Thorvaldsen, en styttan var gjöf frá borgarstjórn Kaupmannahafnar í tilefni af 1.000 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874. Síðan þá hefur fjöldi útilistaverka risið í borginni, mörgum hefur verið fundinn varanlegur staður en önnur hafa verið hluti af tímabundnum sýningum.

Fyssa stendur í Grasagarðinum og táknar íslensk náttúruöfl. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Mörg listaverkin, og sérstaklega þau eldri, eru höggmyndir af þekktum mönnum úr Íslandssögunni og söguganga til að skoða þær getur verið áhugaverð og nýst til að fræðast um fyrri tíma. En aðrir listamenn gerðu styttur af hversdagsfólki sem gegndu einnig mikilvægu hlutverki í sögulegu samhengi. Þar má nefna styttur eins og Útlaga eftir Einar Jónsson og Þvottakonu eftir Ásmund Sveinsson.

Sólfar eftir Jón Gunnar Árnason er í dag orðið eitt af þekktari útilistaverkum borgarinnar og allan ársins hring má sjá ferðamenn stilla sér upp fyrir myndatöku við verkið. Sólfar vann í keppni um útilistaverk sem efnt var til í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986 og var sett niður við Sæbraut og afhjúpað í ágúst árið 1990.

Höggmyndir eftir Hallstein Sigurðsson í Grafarvogi. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR.

Verkið Fyssa í Grasagarðinum eftir Rúrí er dæmi um útilistaverk sem táknar náttúru Íslands. Verkið stendur að hluta til upp úr og að hluta til ofan í jörðinni. Hægt er að líkja því við jörð sem rifnar svo sprungur og gjár myndast. Vatnsrennslið í verkinu er síbreytilegt líkt og í náttúrunni.

Á netinu má finna kort og skemmtilegar gönguleiðir um borgina sem hægt er að nýta til að skipuleggja skemmtilega ferð milli listaverkanna. Það er til dæmis hægt að hefja ferð um miðborgina við Sólfarið og ganga svo í átt að Lækjartorgi, að Alþingishúsinu og að Hljómskálagarðinum og finna fleiri verk. Í Laugardalnum er líka fjöldinn allur af verkum sem gaman er að skoða. Svo er hægt að fara í úthverfin og skoða listina þar. Í Grafarvogi í landi Gufuness má til dæmis finna Hallsteinsgarð þar sem skoða má höggmyndir Hallsteins Sigurðssonar í fallegri náttúru með útsýni yfir til Esjunnar.