Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hefur nú svipt hulunni af tilnefningum sínum til Hönnunarverðlauna Íslands 2020. Alls hljóta þrjú framúrskarandi verkefni tilnefningu í ár en verðlaunaafhendingin fer fram með rafrænum hætti þann 29. janúar kl. 11.
Þau þrjú verkefni sem eru tilnefnd eru verkefnið Peysa með öllu eftir textílhönnuðinn Ýr Jóhannsdóttur eða Ýrúrarí, verkefnið Drangar eftir Studio Granda og svo það þriðja er Flotmeðferð eftir Flothettu.
„Fjölbreyttar tilnefningar sem snerta ólíka fleti innan hönnunargeirans er hvert og eitt framúrskarandi á sínu sviði,“ segir Álfrún Pálsdóttir, kynningarstjóri Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, í samtali við Fréttablaðið.
Þjóðarréttur Íslendinga
Á vef miðstöðvarinnar er fjallað ítarlega um hvert verkefni en þar segir í rökstuðningi dómnefndar um tilnefningu Ýrúrarí að peysurnar hafi vakið mikla athygli þegar þær voru kynntar á HönnunarMars árið 2020.
„Textílhönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir, eða Ýrúrarí, nýtti sér peysur frá Rauða krossinum og glæddi þær lífi með hnyttnum og duttlungafullum hætti þannig að flíkurnar öðluðust alveg nýtt líf eftir allt volkið þar. Þetta eru flíkur sem oftar en ekki lenda í ruslagámnum meðal annars vegna sósubletta frá þjóðarrétti Íslendinga, pylsu í brauði, sem varð innblástur verkefnisins. Í stað þess að fela blettina urðu þeir uppspretta skemmtilegra textílverka þar sem tómatsósa, sinnepshringur, hlæjandi munnar og fjölbreytilegar tungur fengu að njóta sín.“
Arkitektúr í nútímasamhengi
Um verkefnið Dranga segir í rökstuðningi dómnefndar að verkefnið sé metnaðarfullt og vel heppnuð birtingarmynd aðkallandi viðfangsefnis arkitekta í nútímasamhengi.
„Hér er sérstaklega vel útfærð breyting á gömlu sveitabýli og útihúsum í gistihús fyrir ferðamenn. Veðraðar byggingarnar fá að njóta sín og halda útlitslegu yfirbragði með sterkri vísun í sögu og samhengi, en um leið er heildarmynd staðarins styrkt og efld. Dæmi um það er samspil útveggja gistihússins þar sem gömlu veggirnir standa hráir og opnir, án glugga og hurða og mynda áhrifaríkt samspil skugga og takts við nýja veggi“
Slökun og vellíðan
Þriðja og síðasta tilnefningin til Hönnunarverðlauna Íslands árið 2020 er Flotmeðferð eftir Flothettu.
Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að fyrirtækið bjóði upp á hannaða flotmeðferð fyrir litla hópa þar sem sé lögð áhersla á slökun og vellíðan.
„Ferlið er úthugsað með það að leiðarljósi að þátttakendur upplifi djúpa slökun, vellíðan, hvíld og endurnæringu. Af frásögn þátttakanda að dæma er um að ræða einstaka slökun og hugleiðsluástand. Flestar vatnsmeðferðir sem stundaðar eru í heiminum í dag er einstaklingsmeðferð. Það sem gerist í hópmeðferð er á öðrum skala, nærveran við aðra truflar ekkert heldur virðist þvert á móti efla áhrifin.“