„Undirbúningurinn fyrir gjörninginn gengur vel,“ segir belgíski listamaðurinn Floris Boccanegra sem sér fram á að geta í næsta mánuði látið tveggja ára draum sinn um að skila tonni af frosnu jökulvatni á topp fyrrverandi jökulsins Ok rætast með táknrænum gjörningi.

„Núna þarf ég eiginlega bara að fá aðgang að frysti yfir nótt til þess að geta breytt bráðnuðu jökulvatni aftur í ís. Ég hef þegar haft samband við nokkra aðila á Íslandi en ekki enn tekist að finna frysti og er að vonast til þess að finna stóra fiskvinnslu eða verslanakeðju í Borgarnesi eða Reykjavík sem gætu hjálpað mér. Vegna þess að þar ættu að vera nógu stórar frystigeymslur,“ segir Floris, sem reiknar með að þurfa einn rúmmetra undir 30 korkkassa.

„Ég þarf frystinn ekki til þess að geyma klakann heldur bara búa hann til. Ég myndi þá koma með vatnið snemma að kvöldi og láta það frjósa yfir nóttina á meðan ég er sofandi. Ég myndi síðan sækja klakann næsta morgun og ferja hann upp á Ok.“

Floris sagði fyrst frá hugmynd sinni að gjörningnum um þversagnarkennt samband ferðafólks og fagurrar náttúru í Fréttablaðinu snemmsumars 2020 og að hann hygðist, innblásinn af grísku goðsögninni um Sísífús skila íslenskri náttúru tonni af ís upp á Ok.

Floris segist þurfa fjórar nætur til þess að frysta þessa táknrænu kolefnisjöfnun sína en hann ráðgerir að flytja ísinn upp á tind Oks frá mánudeginum 5. september til föstudagsins 9. september. „Ég reikna með að þetta verði 40 ferðir á toppinn,“ segir listamaðurinn sem ætlar að bera 25 kíló af frosnu jökulvatni upp á fjallið í hverri ferð í sérstaklega einangruðum bakpoka.

Hann biður þau sem mögulega gætu hugsað sér að hjálpa honum við frystinguna um að senda tölvupóst á boccanegrart@gmail.com.