Fjölbreytni íslensku flórunnar birtist glöggt í málverkum Eggerts Péturssonar. Við tökurnar á hinni 74 mínútna löngu heimildarmynd um Eggert og list hans, ferðaðist Þóra Ellen Þórhallsdóttir grasafræðingur með honum víða.

„Við Eggert fórum suður í Herdísarvík, við gengum um svæðið ofan við sumarbústaðinn hans í Bláskógabyggð, við fórum í Skaftafell og vorum líka undir Eyjafjöllunum. Svo fórum við í Þjórsárver og norður á Tröllaskaga,“ lýsir Þóra Ellen ferðalögunum í stuttu máli. „Einnig fórum við til Finnlands. Eggert var með stóra sýningu þar fyrir nokkrum árum og myndirnar seldust eiginlega allar, meðal annars stór og mikil verk sem eru á söfnum. Eitt þeirra heitir Tröllaskagi og er með eitthvað um 80 jurtategundum. Tröllaskagi er tegundaauðugt svæði og Eggert fylgir flórunni frá láglendi og upp í hæstu fjöll. Þetta verk er komið á frímerki núna. Annað stórt málverk var gert á sama hátt í Eyjafjöllunum, við skoðuðum það líka.“

Þóra Ellen segir frá viðtal í myndinni við finnskan listfræðing sem Eggert sé búinn að þekkja síðan hann var í námi í Bretlandi. Sá telji að í verkum Eggerts birtist útópía, náttúruleg auðæfi sem séu horfin annars staðar. Hún kveðst ekki hafa þá tilfinningu sjálf. „Maður veit svo sem ekkert hvað hnattræn hlýnun gerir en ég tel okkar flóru ekki ógnað eins og er, nema þá af lúpínunni. Ég get varla farið inn í Bæjarstaðarskóg og Morsárdal lengur. Nú er lúpínan á fullri ferð niður eftir gamla farvegi Skeiðarár, þá er bara allur Skeiðarársandur opinn fyrir henni, síðan æðir hún yfir landið fyrir framan Skaftafellsjökul, ofboðslega fallegt land, það er einmitt í myndinni.“

Þóra Ellen segist fyrst hafa hitt Eggert Pétursson árið 2002. „Við pöntuðum hjá honum málverk sem ég fékk í fimmtugsafmælisgjöf tveimur árum síðar. Mig langaði í mynd af gullbrá sem er einkennistegund hálendisvinjanna í Þjórsárverum. Fleiri tegundir eru á myndinni sem er ofsalega falleg, fallegasta málverkið mitt. Síðar leiddi Hilmar Bragi Janusson verkfræðingur okkur Eggert saman. Hann var þá sviðsstjóri verkfræði-og raunvísindasviðs Háskóla Íslands, hafði áhuga á að efla snertiflötinn milli lista og vísinda og hélt málþingið Blómstrandi list um Eggert Pétursson og grasafræðina í verkum hans. Þar var ég með innlegg ásamt Andra Snæ og svo sat Eggert sjálfur fyrir svörum. Málþingið var haldið í Öskju 2012 og stóri salurinn var fullur af fólki.“

Eins og málverk eftir Eggert Pétursson er á dagskrá Stockfish hátíðarinnar í Bíói Paradís, tvær sýningar eru á dagskrá um helgina og bíóið tryggir að tveir metrar geti verið á milli gesta.