Rapparinn Floni kynnti nú rétt í þessu glænýtt ilmvatn undir eigin nafni á Twitter og á Facebook. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Floni Eau De Parfum er samstarfsverkefni milli tónlistarmannsins og Laugar Spa sem unnið hefur verið að síðasta eina og hálfa árið.
Íslenski tónlistarmaðurinn mun svipta hulunni af nýja ilmvatninu, sem einfaldlega nefnist Floni Eau De Parfum þann 3. desember næstkomandi og verður hann einungis fáanlegur í Húrra Reykjavík, Laugar Spa og á floni.is.
Ég kynni með stolti:
— FLONI (@fridrikroberts) November 29, 2020
FLONI EAU DE PARFUME
Fer í sölu þann 3. desember í @HurraReykjavik og https://t.co/DIWfJj0Pbu
mjög takmarkað upplag! pic.twitter.com/wNIj0CCRnN
Segir í tilkynningunni að líkt og nafnið gefi til kynna sé um mjög persónulegt verkefni að ræða fyrir Flona en hann hefur um árabil verið mikill snyrtivöru- og ilmáhugamaður og hefur lengi blundað í honum að þróa sinn eigin ilm sem er jafnt ætlaður fyrir öll kyn.
„Útgangspunktur Flona þegar hann ímyndaði sér ilminn voru meðal annars ýkt mótvægi dimmra vetrarnótta versus falleg sumarkvöld og rómantík skemmtanalífsins versus látlausar samkomur, fullur af mystík, spennu, kynþokka og frelsi líkt og tónlist hans er,“ líkt og segir í tilkynningunni.
Þar segir ennfremur að við framleiðsluna hafi Floni leitað til Laugar Spa. Ilmhönnuðurinn Andrea Maack aðstoðaði við framleiðslu á ilminum, en hún hefur þróað vörumerki sem seld eru í ýmsum lúxusverslunum erlendis.
Andrea horfði aðallega til Flona sem persónu og hugmyndir hans um ilminn og sammæltust þau um að útgangspunktur hans væri einskonar nútíma "rakspíri" fyrir öll kyn og aldur. Ilm-nóturnar eru samblanda af krydduðum og sætum nótum eins og kardimommu, patchouli, greipaldin og frosnu lavender sem mynda saman mjög fókuseraðan og dulkenndan ilm.
