Tón­listar­maðurinn Floni, réttu nafni Frið­rik Róberts­son, er nú ekki lengur skráður sem höfundur á Spoti­fy síðu plötunnar Venus en Floni gaf plötuna út á­samt Auðunni Lúthers­syni, betur þekktur sem Auður, síðast­liðinn mars. Mbl.is greindi fyrst frá málinu.

„Venus sam­tvinnar sögur Auðar og Flona, rann­sakar líðan þeirra, segir frá ástar­ævin­týrum og gefur hlustanda tæki­færi til þess að heyra hvernig þeir vinna saman og draga fram það besta í hvorum öðrum. Venus er ein­stakt tón­verk að því leiti að hér mætast tveir ó­líkir tón­listar­stílar Auðar og Flona,“ segir um stutt­skífuna í grein á vef Vísis frá 29. mars.

Ekki er hægt að finna plötuna þegar farið er inn á síðu Flona á streymis­veitunni Spoti­fy og er hans hvergi getið í þeim fimm lögum sem platan saman­stendur af. Mynd plötunnar er þó enn sú sama og Floni og Auður notuðu til að kynna plötuna í mars, og er myndin af þeim tveimur saman.

Svona lítur platan út á Spotify.
Mynd/Skjáskot

Sakaður um kynferðisofbeldi

Líkt og greint hefur verið frá undan­farið hefur Auður verið mjög um­deildur undan­farið eftir að þó nokkrar konur stigu fram og sökuðu hann um kyn­ferðis­legt of­beldi. Í yfir­lýsingu um málið játaði hann að hafa farið yfir mörk en þver­tók fyrir aðrar sögur sem höfðu verið í dreifingu á sam­fé­lags­miðlum.

Margir hafa nú fjar­lægst Auð vegna málsins og mun hann til að mynda ekki sjá um tón­list í leik­ritinu Rómeó og Júlía líkt og á­ætlað var. Þá mun hann ekki koma fram á tón­leikum Bubba næst­komandi mið­viku­dag.