„Hún er komin heim og þetta var mjög skrýtið þegar ég fékk símtal á fimmtudagskvöld og var spurð hvort ég væri eigandi Púku. Guð, já, þetta er ótrúlegt og ég hefði ekki trúað að þetta gæti gerst,“ segir Ingibjörg B. Guðmundsdóttir, eigandi kisunnar Púku sem hafði verið týnd í eitt og hálft ár þangað til hún fannst í Vesturbænum í Reykjavík á fimmtudaginn.

„Hún er svo gæf og gerði sig einhvern veginn bara strax heimankomna. Hún heldur svolítið vöku fyrir manni á nóttunni og sefur á daginn. En hún er bara mjög indæl og með mikla matarlyst.

Ég bjóst bara ekkert við að sjá hana aftur og er búin að vera að hugsa um að fá mér aðra kisu,“ segir Ingibjörg. Hissa og himinlifandi eftir að hafa endurheimt köttinn sem hvarf.

Á réttri hillu

Fréttablaðið.is greindi frá því á föstudaginn að Púka hefði fundist við Landakotskirkju kvöldið áður þegar hún gerði sig líklega til þess að elta Áshildi Haraldsdóttur flautuleikara heim. Áshildur og Stefán Snær Grétarsson, eiginmaður hennar, fundu síðan fljótt út hver eigandi Púku væri og að hún byggi á Egilsstöðum.

Stefán Snær og Púka áður en kisi hélt heim á leið með flugi og heimkomin til Egilsstaða, sátt í örmum eiganda síns, Ingibjargar B. Guðmundsdóttur.
Fréttablaðið/Samsett

Stefán Snær hringdi í framhaldinu í Ingibjörgu og kom kisu síðan í flug á föstudaginn og fylgdi síðan málinu eftir með símtali síðar þann sama dag. „Púka fór með flugi til Egilsstaða klukkan 15,“ sagði Stefán Snær í samtali við Fréttablaðið.

„Við Áshildur heyrðum aðeins í henni, eigandanum sem sagt, ekki Púku, seinnipartinn og þá var hún komin heim og upp í hillu. Púku finnst gaman að fara upp á hluti,“ segir Stefán Snær sem komst að þessari tilhneigingu Púku eftir stutt kynni.

Púka í Vesturbænum þar sem hún sýndi strax að henni finnst gott að vera uppi á einhverju.

„Hún er mjög róleg og góð og er akkúrat núna uppi á hillu. Hún fer alltaf þangað,“ staðfesti Ingibjörg.

Óleyst ráðgáta

„Nú þekki ég ekki söguna alveg,“ segir Ingibjörg og hlær. „Málið er að ég fór til Kanarí og hún fór í pössun í Reykjanesbæ og ég hef ekkert séð hana síðan þá og veit ekkert hvert hún fór. En henni líður vel og það hefur pottþétt einhver hugsað um hana því feldurinn er góður.

Þannig að kannski er einhver, sem hún er búin að vera hjá, sem saknar hennar núna. Ég veit það ekki. Ég veit ekki neitt,“ segir Ingibjörg og hlær og ef ske kynni að einhver staðgöngueigandi sakni Púku þá upplýsist hér með að hún er í góðu yfirlæti heima á Egilsstöðum.