Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, fagnar áttræðisafmæli sínu í dag og af því tilefni var blásið til veislu við heimili hennar á Hlíðarvegi í Kópavogi í morgun. Skólakór Kársnes kom og söng afmælissönginn undir stjórn Álfheiðar Björgvinsdóttur en Þórunn Björnsdóttir, stofnandi kórsins, mætti einnig í veisluna og stjórnaði Maístjörnunni við mikinn fögnuð gesta sem allir sungu með.

Rannveig var alþingismaður Reyknesinga á árunum 1989-2003 fyrir Alþýðuflokkinn, þingflokk jafnaðarmanna og Samfylkinguna og alþingismaður Suðvesturkjördæmis 2003-2007 fyrir Samfylkinguna. Þá var hún félagsmálaráðherra 1994-1995 og fyrsti varaforseti Alþingis árin 2005-2007.

Rannveig var einkar ánægð með veisluhöldin og skemmti sér vel. Meðal gesta voru Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Kristján Jóhannsson söngvari og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, borgarstjóri og utanríkisráðherra.

Rannveig var glöð og kát í veislunni í morgun.
Mynd/Sólveig Skaftadóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mætti í veisluna og fagnaði með Rannveigu.
Mynd/Sólveig Skaftadóttir
Logi Einarsson færði Rannveigu blóm fyrir hönd Samfylkingarinnar í tilefni dagsins.
Mynd/Sólveig Skaftadóttir
Það var sól og blíða á meðan á veislunni stóð.
Mynd/Sólveig Skaftadóttir
Kristján Jóhannsson var einn þeirra sem fagnaði með Rannveigu í morgun, en Kristján er tengdasonur afmælisbarnsins.
Mynd/Sólveig Skaftadóttir