Ég heillaðist af Sólheimum þegar ég dvaldi hér í tíu daga námslotu í jógakennaranámi mínu árið 2012. Ég hugsaði þá með mér að það væru forréttindi að fá að búa og starfa í slíku samfélagi og það er svo sannarlega raunin, og ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast því,“ segir Kristín Björg Albertsdóttir, sem tók við starfi framkvæmdastjóra á Sólheimum 1. ágúst 2018.

Kristín kann einkar vel við sig á Sólheimum, eins og reyndar alls staðar þar sem hún hefur búið á landsbyggðinni.

„Ég er mikil dreifbýlismanneskja og kann vel við mig í fámenni og mikilli nánd við náttúruna. Það hefur gefið mér mikið að fá að kynnast því að lifa og starfa í fjölbreyttu samfélagi Sólheima þar sem allir eru eins og stór fjölskylda, en hver fær þó að fljúga eins og hann er fiðraður. Það er svo sem ekkert sem hefur komið beint á óvart, nema þá hve starfsemin er mun fjölbreyttari en ég hafði gert mér í hugarlund og hve gróskan í menningarlífi innan staðarins, svo sem tónlist, leiklist og listsköpun, er ótrúlega mikil.“

Sólheimar séu eins og vin í eyðimörk.

„Fegurðin, bæði í umhverfi og mannlífi, einkennir samfélagið á Sólheimum. Grímsnesið er allt fallegt og gróskumikið, en þegar komið er í Sólheima liggur aðalbyggðarkjarninn niðri í fallegri kvos á milli tveggja ása, umvafið skógi og fallegum gróðurreitum og þar liðast litlar götur þar sem hámarkshraðinn er 15 km/klst. Þar er mikil veðursæld, iðandi fuglalíf og heitur hver. Andrúmsloftið er einstakt, þar ríkir í senn kærleikur og gleði sem hvílir á þeim grunni sem Sesselja sáði til, sem byggir á hugmyndafræði, eða mannspeki, Rudolfs Steiners, kristilegum gildum og samspili umhverfis og manns.“

Hafi aldrei liðið eins vel og á Sólheimum

Félagsþjónusta á Sólheimum er sniðin að þörfum hvers og eins.

„Unnin er þjónustuáætlun í samvinnu við einstaklinginn og leitast við að valdefla hann út frá styrkleikum og getu. Þá er lögð áhersla á að virkja sköpunarkraft og áhuga, með því að finna verkefni eða atvinnuþátttöku sem hentar viðkomandi. Eins og áður sagði er fjölbreytt starfsemi fyrir hendi, hvort sem er á vinnustofum eða í atvinnustarfseminni, svo flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Kristín Björg, í skapandi og hamingjuríku samfélagi Sólheima.

„Það er ekki annað að heyra á fólkinu okkar en að það sé mjög sátt og líði vel. Hér eru einstaklingar sem hafa reynslu af því að búa annars staðar en á Sólheimum, en segja að þeim hafi aldrei liðið eins vel og eftir að þeir fluttu í Sólheima. Ég held að sú samheldni og nánd sem hér ríkir skapi ákveðið öryggi og vellíðan. Hér höfum við húsnæði, eða íbúðavalkosti, fyrir 43 fatlaða íbúa, samkvæmt núverandi samningi Sólheima við Bergrisann bs. Flestir eru í sjálfstæðri búsetu með sér íbúð, annars eru þrjú lítil sambýli með sjálfstæðum íbúðaeiningum og sameiginlegum miðlægum kjarna, það er eldhúsi og setustofu, og svo eitt stærra sambýli fyrir níu íbúa, fyrir þá sem eldri eru eða þurfa meiri þjónustu.“

Sólheimar blómstri áfram eins og hingað til

Að mati Kristínar Bjargar liggja ótal tækifæri til vaxtar og þróunar á Sólheimum.

„Ég tel að hér eigi byggðin eftir að stækka og íbúum að fjölga og eins held ég að það liggi miklir vaxtarmöguleikar í sjálfbærninni, en Sólheimar eru skilgreindir sem sjálfbært samfélag og hafa alla innviði sem slíkt. Hér er öll framleiðsla á grænmeti með lífræna vottun og stefnt er að því að auka framleiðsluna til muna með því að koma upp lýsingu í gróðurhúsin, en framleiðslan hefur hingað til að mestu verið háð sumarbirtunni. Þá eru einnig vaxtarmöguleikar í ferðaþjónustunni, kynningum og kennslu um sjálfbærni.“

Á 90 ára afmæli Sólheima á Kristín Björg ósk til handa Sólheimum.

„Já, ég óska þess að Sólheimar eigi eftir að blómstra áfram eins og hingað til og að ætíð náist að varðveita þá fallegu sögu sem staðurinn á og að sá grunnur sem lagður var, glatist ekki.

Þá óska ég að gildi Sólheima verði ætíð í hávegum höfð, kærleikur, virðing, fagmennska og sköpunargleði. Sólheimar, til hamingju með afmælið!“