Svefn, eða öllu heldur skortur á honum, er dr. Erlu Björnsdóttur mikið hjartans mál þannig að hún nýtir sérfræðiþekkingu sína og öll tækifæri í hugsjónabaráttu sinni fyrir bættri svefnmenningu.

„Þetta er bara samfélagslegt mein sem við þurfum að bregðast við og hugmyndin er að reyna að opna augu bæði almennings og fyrirtækja, segir Erla um ráðstefnuna Svefn í Hörpu í haust.

Erla sem er sálfræðingur með doktorspróf í líf- og læknavísindum er ekki síst spennt fyrir því að hitta Matthew Walker, einn þekktasta svefnsérfræðing heims, á ráðstefnunni.

„Hann er bara poppstjarna í þessum heimi þannig að það er ótrúlega mikill heiður að fá hann til landsins,“ segir Erla um Harvard-prófessorinn sem hefur slegið í gegn með bókinni Why We Sleep.

Raunveruleg svefnþörf

„Þessi bók hefur aldeilis farið sigurför um heiminn, verið á metsölulistum úti um allt og opnað augu almennings fyrir mikilvægi svefnsins sem mér hefur oft fundist vera hin gleymda grunnstoð heilsunnar,“ segir Erla sem er nýbyrjuð að kenna valnámskeið við Háskólann í Reykjavík þar sem bók Walkers er lögð til grundvallar. „Why We Sleep er mjög vísindaleg á köflum en hann nær vel til almennings með henni þótt það sé líka gaman að lesa hana sem vísindamaður.“

Erla segir þó mestu máli skipta að Walker hafi tekist að koma mikilvægum skilaboðum áleiðis. „Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt og svo er hann bara algerlega frábær ræðumaður og ég held að þessi ráðstefna sé alveg einstakt tækifæri og klárlega það stærsta sem hefur verið gert í þessum málum fyrir almenning á Íslandi.“

Svefn eða dauði

Erla segir Walker einfaldlega tala tæpitungulaust um hversu alvarleg áhrif það hefur að vera vansvefta. „Því miður sefur mjög stór hluti fólks allt of lítið í dag og við Íslendingar erum alveg sér á báti í þessu en samkvæmt nýjustu tölum segist um þriðjungur sofa sex tíma eða minna sem er bara orðinn hættulega lítill svefn sem eykur líkur á alls konar sjúkdómum, skerðir lífslíkur og fleira.

Prófessor Matthew Walker hefur slegið í gegn með bókinni Why We Sleep. Nordicphotos/Getty

Mér finnst þetta svolítið sorglegt vegna þess að þótt svefninn hafi sjaldan verið jafn mikið í umræðunni og maður finni að fólk er almennt meðvitaðra um að þetta skipti máli þá hafa þessar tölur aldrei verið eins svakalegar.

Þarna er eitthvert misræmi í gangi sem við þurfum að vinna með og gera fólki grein fyrir því að afleiðingarnar birtast á svo mörgum sviðum í daglegu lífi. Þetta snýst ekki aðeins um að þú munir fá hjartaáfall eftir tuttugu ár, heldur líka bara hvernig þú ert að standa þig í vinnunni, hversu streitan er mikil, hvernig þér líður, hvernig þú tæklar vandamál og allt þetta dagsdaglega.“

Óþreytandi í svefnbaráttunni

„Mér finnst mikilvægt að efla fræðslu, koma þessu inn í námskrá og fræða almenning vegna þess að afleiðingarnar eru svo alvarlegar,“ segir Erla um þessa mikilvægustu og öflugustu forvörn gegn andlegum og líkamlegum sjúkdómum.

Erla bendir einnig á að fyrirtæki ættu að sjá sér beinan hag í því að stuðla að bættum svefni starfsfólks þar sem lélegur svefn er ávísun á minni framleiðni, fleiri veikindadaga, aukna slysahættu og meira álag á heilbrigðisþjónustuna. „Þetta er rosalega dýrt vandamál innan fyrirtækja og eitt þeirra sem borgar sig hvað mest að vinna með vegna þess að inngripin skila svo miklum árangri.“

Vakandi að feigðarósi

Erla segir áhugavert að samkvæmt Gallup-könnun segist önnur hver manneskja sofa of lítið en flestir svari síðan neitandi þegar þeir eru spurðir hvort þeir séu að gera eitthvað til að viðhalda góðum nætursvefni.

„Það er erfitt að breyta venjum en þegar maður finnur fyrir afleiðingum svefnleysis þá er maður nú oft til í að leggja eitthvað á sig til að bæta svefninn. Sérstaklega þegar maður fer að finna hvað maður fær í staðinn.“

Erla bendir í þessu sambandi á að boðskapur Walkers hafi fengið jákvæðan hljómgrunn í viðskiptalífinu og það muni um það þegar áhrifafólk, eins og nú síðast Bill Gates, stofnandi Microsoft, leggi sín lóð á vogarskálarnar.

„Það hjálpar umræðunni mikið þegar Bill Gates stígur fram og segir að þetta sé áhrifamesta bók sem hann hefur lesið. Þetta kveikir í fólki og vekur áhuga og það er gaman þegar þetta fólk verður til þess að innan fyrirtækja vakni vitund um að það er ekki töff að vinna fram yfir miðnætti, sofa bara í fjóra tíma og vera svo búinn að svara tíu tölvupóstum klukkan sex á morgnana. Dyggðin liggur ekki í því og það er svefninn sem er bara algert lykilatriði.

Arianna Huffington gerði náttúrlega frábæra hluti og náði svolítið eyrum kvenna í viðskiptum með því að tala um þetta og núna kemur Bill Gates fram og talar sérstaklega um Matthew Walker sem er auðvitað bara frábært.“