Lífið

Flippaðasta kjallaradraslið í Cannes

Þótt mest beri á Gullpálmanum, hátíðarsýningum og rauðum dreglum er Cannes ekki síst risavaxinn kvikmyndamarkaður. Senuþjófarnir í ruslkjallaranum í ár eru heillum horfnu kempurnar Steven Seagal og Mike Tyson.

Hvor í sínu lagi eru Seagal og Tyson löngu búnir að vera en geta þeir bjargað sér með því að snúa bökum saman?

Kvikmyndahátíðin í Cannes er stærsta hátíð sinnar tegundar í heimi. Tvær vikur í maí kemur bókstaflega allur kvikmyndabransinn saman í þessum smábæ við Miðjarðarhafsströnd Frakklands.

Handrit, hugmyndir og kvikmyndir ganga kaupum og sölum og innan um blaðamenn, ljósmyndara, leikara, leikstjóra og framleiðendur með stóra drauma spóka stórstjörnurnar og risamógúlarnir sig. Allur er mannskapurinn svo meira eða minna vandlega sósaður í rósavíni, gin og tónik og bjór.

Allar helstu bíómyndirnar, hvort sem þær eru í keppni eður ei, eru sýndar í risastórum sölum hátíðarhallarinnar, Palais des Festivals. Í hallarkjallaranum þrífst hins vegar lággróðurinn í fínpússaðri Kolaportsstemningu þar sem fjöldi framleiðslu- og dreifingarfyrirtækja koma sér fyrir á básum og reyna að selja kvikmyndahúsaeigendum og bransafólki úr öllum heimshornum myndir sínar.

Þarna ægir saman alls konar ódýrum myndum; hryllingi, teiknimyndum, ljósbláu gumsi og í raun öllu sem hægt er að kokka upp í villtustu draumum manns.

Heimsókn í Marché du Film getur verið ein skemmtilegasta upplifun Cannes-heimsóknar þótt ekki væri nema einungis fyrir veggspjöld myndanna sem þar eru á boðstólum. Sannkölluð listasýning lágkúrunnar þótt alltaf leynist demantar í foraðinu.

Myndir með útbrunnum stjörnum, leikurum og leikkonum sem mega muna sína fífla mun fegurri en eru löngu föst í myndum sem aldrei komast á hvíta tjaldið heldur fara rakleitt á DVD eða í streymi eru áberandi.

Einna mest ber á þeim Steven Seagal og Mike Tyson í ruslflokknum í ár. Báðir annálaðir drullusokkar, annar orðinn að fornleifum í hasarmyndaheiminum og hinn heillum horfinn boxari.

Þeir takast á í furðuverkinu China Salesman og eru sennilega einu tveir mennirnir á hnattkringlunni sem ekki hafa áttað sig á að hvað þá varðar er brandarinn löngu búinn.

Leikkonan Tara Reid, sem átti sínar fimmtán mínútur sem þokkagyðja í American Pie-myndunum upp úr aldamótum, prýðir annað veggspjald í kjallaranum.

Tara er vígaleg í auglýsingunni fyrir hryllingsmyndina Bus Party to Hell en einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að miklu meira en þetta plakat þurfi til að selja myndina. En það vekur þó óneitanlega forvitni.

Tara hefur á síðustu árum lifað á fornri frægð í hinum kengsúru sjónvarpsmyndum Sharknadeo en sú sjötta í röðinni mun vera handan við hornið.

Franski leikarinn Gérard Depardieu (The Return of Martin Guerre, Danton, Police, Cyrano de Bergerac, Germinal) hefur síðasta rúma áratuginn eða svo sýnt ótrúlega elju við að rústa ferli sínum með stælum, leiðindum og heimskupörum.

Eiginlega þarf teygja sig eftir Mickey Rourke til þess að finna aðra eins hliðstæðu í sjálfstortímingu enda Rourke og myndir hans tíðir gestir í Kolaportinu í Cannes.

Depardieu er að þessu sinni mættur til leiks í myndinni Saving My Pig sem gengur, eins og nafnið bendir til, út á björgunarleiðangur svíns. Hvort Depardieu  geti bjargað ferli sínum með myndinni er svo önnur saga.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Menning

​Þór­dís nýtt Leik­skáld Borgar­leik­hússins

Lífið

„Lewis Hamilton dúfna“ selst á metfé

Lífið

Kit Har­ingt­on í ein­læg­u við­tal­i um lok Game of Thron­es

Auglýsing

Nýjast

Fólk verður ekki „full­orðið“ fyrr en á fer­tugs­aldri

Ræða hvað­a per­són­a mynd­i fylgj­a með á eyð­i­eyj­u

Bear Grylls í nýjum gagn­virkum þáttum á Net­flix

Raun­v­er­u­­leik­a­­stjarn­a hand­­tek­in fyr­ir fíkn­i­efn­a­vörsl­u

Um­ræðu­drullu­mall á Austur­velli

Fékk ekki frið frá gælu­dýrum ná­grannans

Auglýsing