Óskar Þór Guðmundsson, rannsóknarlögreglumaður á Austurlandi, stendur fyrir verkefninu „Hjólað í bæinn“ og er um þessar mundir að hjóla um 620 km leið þvert yfir hálendið, frá Fáskrúðsfirði til Reykjavíkur. Hann lagði af stað á laugardaginn og stefnir á að rúlla í bæinn fyrir Reykjavíkurmaraþonið og taka þátt í 10 km hlaupinu 24. ágúst. Með verkefninu vonast Óskar til að safna fé fyrir Samhjálp, sem hjálpar þeim sem hafa farið halloka í lífinu, hvort sem það er vegna fíknar eða annarra vandamála. Óskar segir að Samhjálp hafi bjargað lífi dóttur hans og þess vegna vilji hann hjálpa samtökunum að bjarga öðrum.

Óskar lét fara vel um sig í Laugarfelli og sat og horfði á slydduna og rokið fyrir utan gluggann þegar blaðamaður náði tali af honum. „Ég er bara að bíða færis. Það á að lægja eftir hádegið og þá ætla ég að leggja í hann,“ segir hann.

Tíu þúsund manns í betra hjólaformi

Óskar segist ekki vita hvernig hann fékk hugmyndina að því að leggja í þetta sérstaka ferðalag. „Ég hef alltaf verið mikið að þvælast um hálendið, aðallega á bíl. Hugmyndin kom upp fyrir nokkru þegar ég mætti aðila á „fatbike“ á hálendinu,“ segir hann. „Svo keypti ég mér „fatbike“ og þá lá eiginlega beinast við að láta bara vaða.

Leiðin sem Óskar er að fara er um 620 kílómetrar.

Ég held að það hafi verið í kringum áramótin sem ég ákvað að fara ekki með bíl í Reykjavíkurmaraþonið, heldur hjóla. Það var nú eiginlega alltof venjulegt að fara eftir þjóðveginum, þannig að ég ákvað að fara bara þessa leið,“ segir Óskar léttur í bragði.

Hann á samt ekki langan hjólreiðaferil að baki. „Ég hef í rauninni ekki hjólað að ráði nema frá áramótum, eftir að ég ákvað að gera þetta,“ segir hann. „Það eru örugglega tíu þúsund manns á Íslandi í betra hjólaformi en ég.“

Lætur vont veður ekki skemma gleðina

Óskar telur sig ekki hafa þurft sérstakan kjark til að kýla á þetta, heldur nálgast hann ferðina af miklu æðruleysi. Hann segir það hafa komið sér á óvart hvað framtakið vekur mikla athygli. „Ég held að flestum finnist þetta merkilegra en mér,“ segir hann.

„Þetta er bara verkefni. Maður leggur af stað og einhvern tímann verð maður kominn,“ segir Óskar. „Hvort ég verð 10 eða 13 daga á leiðinni verður bara að koma í ljós. Enda eru veðurguðirnir búnir að minna mig á hverjir skipuleggja ferðina og það er ekki ég.“

Hér er Óskar að berjast á móti norðanrokinu á leið upp á Fljótsdalsheiði.

Veðrið hefur hægt á Óskari, enda hefur hann þurft að berjast gegn norðanátt, roki og rigningu. Hann segir að þá sé ómetanlegt að hafa konuna sína með. „Hún þurrkar tárin og segir mér að hætta þessu væli og halda áfram. Nú er líka gott að setjast upp í heitan bílinn í nestispásu,“ segir hann á Facebook-síðu sinni og bætir við að líkaminn hafi líka aðeins kvartað yfir átökunum, svo einstaka spýja hafi verið skilin eftir á leiðinni.

En Óskar lætur ekki deigan síga þótt norðanáttin blási á móti og vonast til að komast í bæinn fyrir maraþonið. „Ef ég verð ekki kominn alla leið bruna ég bara í bæinn, tek maraþonið og held svo bara áfram,“ segir hann. „Ef veðurguðirnir fara aðeins að hægja á sér á ég nú alveg að hafa þetta, held ég.“

Óskar á ferðinni í Hallormsstaðaskógi á Austurlandi.

Óskar viðurkennir að hann hafi vonast eftir betra veðri í miðjum ágúst. „En þetta er Ísland,“ segir hann. „Veðrið hefur verið það erfiðasta við þetta. Fyrstu tvo dagana hef ég haft norðanrok í fangið og það hefur verið rigning og suddi. Þannig að tveir fyrstu dagarnir voru styttri en ég ætlaði mér í upphafi. En við látum það nú ekki skemma gleðina, skal ég segja þér,“ segir Óskar. „Það verður bara að hafa sinn gang. Maður getur skipulagt svona ferð í þaula, en það er alltaf eitthvað sem hefur áhrif. Eins og er dreymir mig bara um að fá að hjóla heilan dag undan vindi.“

Fíklar fá ekki næga hjálp

Óskar ákvað að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu til að hjálpa Samhjálp og vegna þess að hann nýtur þess. „Þetta er drullugaman og ég hvet alla til að mæta. Það geta þetta allir, því það má alveg labba og stemningin í 10 km hlaupinu er mögnuð,“ segir hann. „En ástæðan fyrir því að ég er að hjóla í bæinn er að hluta til fyrir sjálfan mig og ég var líka að vonast til að þá myndu fleiri styrkja Samhjálp.

Ég vildi líka vekja athygli á úrræðaleysinu sem ríkir í sambandi við meðferð á ungum fíklum. Það er eitthvað sem þjóðin gæti staðið sig betur í,“ segir hann. „Við misstum fleiri vegna fíknar en bílslysa á síðasta ári, samt hefur bílslysum fjölgað gífurlega vegna aukins fjölda ferðamanna. Mér finnst við ekki bregðast nægilega vel við þessu. Þegar fíkill vill meðferð þarf hann jafnvel að bíða vikum eða mánuðum saman eftir henni.

Óskar ásamt dóttur sinni eftir Reykjavíkurmaraþonið í fyrra.

Ég kynntist þessu af eigin raun þegar dóttir mín glímdi við fíknivanda. Þegar hún gafst upp gat ég hvergi komið henni í afeitrun, svo ég þurfti að sjá um það sjálfur. Sem betur fer fékk ég svo stað fyrir hana hjá Samhjálp fljótlega. En það eru ekki allir fíklar í þeirri stöðu af hafa bakland og fá því ekki nauðsynlega hjálp,“ segir Óskar. „Ég held að við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á að hjálpa þeim sem eru tilbúnir að hætta í neyslu.

Mér finnst líka vanta að það sé einhver gulrót fyrir þá sem verða edrú. Fólk sem verður edrú þarf að glíma við afleiðingarnar af lífinu sem það lifði áður, en margir hafa komist í kast við lögin,“ segir Óskar. „Mín skoðun er að ef þú sýnir ákveðinn árangur, hefur kannski verið edrú í 3-4 ár, þá eigi að vera hægt að losna við þetta svo þetta elti þig ekki næstu tíu árin. Það gæti virkað sem góð hvatning til fíkla.“

Að lokum vill Óskar hvetja fólk til að styrkja Samhjálp eða önnur félög sem eru í þessari vegferð. „Við höfum til dæmis fylgst með verkefni minningarsjóðs Einars Darra, „Ég á bara eitt líf“, og mér finnst það alveg frábært,“ segir Óskar. „Sú fjölskylda hefur staðið sig ótrúlega vel í að vekja athygli á fíknivanda ungs fólks.“


Áhugasamir geta lagt verkefninu lið með því að finna Óskar á vefnum www.hlaupastyrkur.is.