Cinnamon Fields heitir fyrsta plata Bony Man en hún kom út á streymisveitum í september síðastliðnum. „Ég ætlaði að halda útgáfutónleika í október en svo varð ég að seinka þeim þar sem alls konar vesen kom upp,“ segir Guðlaugur og útskýrir að bæði hafi Covid sett strik í reikninginn vegna takmarkana en líka vegna þess að allir salir voru uppbókaðir á núll einni.

„Ég náði svo loksins að bóka sal hjá Kexi þann 4. desember og ég er eiginlega að komast að því núna að tónleikarnir hefðu ekkert mátt vera fyrr á ferðinni því við erum núna fyrst að verða nokkuð góðir,“ segir Guðlaugur en hann fékk nokkra félaga til liðs við sig við undirleikinn sem ekki spiluðu með honum á plötunni sjálfri.

„Við eigum eina æfingu eftir og svo kannski getum við rennt í gegnum lögin í sándtjékki og þá kannski sleppur þetta til,“ segir Guðlaugur og hlær. Ástæða þess að Guðlaugur kallar sig Bony Man er einföld: „Friðrik Sólnes, æskuvinur minn síðan í sex ára bekk, skrifaði þetta á kaffibollann minn, ég var með frauðplast-kaffibolla. Við vorum úti að reykja í MH. Fólk hló að þessu og svo bara festist það.“

Hollendingar fá ekki nóg

Hann vinnur sem framhaldsskólakennari í FB en hefur öðlast það sem kalla mætti heimsfrægð í Hollandi í millitíðinni. „Ég er einhvern veginn miklu þekktari í Hollandi en á Íslandi og ég get eiginlega bara rakið það til hollensks tónlistaráhugamanns sem rakst á plötuna mína og hreifst af kover-myndinni,“ segir Guðlaugur.

Sá deildi plötunni á vinsælli hollenskri tónlistarsíðu og svo fór sem fór. „Þetta er svona síða þar sem menn setja inn áhugaverðar plötur sem eru í umræðunni og þá fóru margir að hlusta og þetta virðist fara svona líka rosalega vel ofan í Benelux-tónlistarmennina,“ segir Guðlaugur léttur.

„En þetta hefur enn ekki komist lengra einhvern veginn. Ég held það sé ennþá þannig að það eru þrisvar sinnum fleiri að hlusta á plötuna í Hollandi heldur en á Íslandi,“ segir Guðlaugur hlæjandi en hann segir Hollendinga duglega að hafa samband.

„Ég fékk á tímabili rosalega mikið af póstum og svona frá hinum og þessum sem vildu fá texta og voru að spyrja mig hvort ég ætlaði ekki að gefa út vínilplötu eða geisladiska. Ég hef örugglega fengið yfir hundrað þannig.“

Aðdáendur þurfa ekki að örvænta en Guðlaugur bíður nú eftir vínil­útgáfu plötunnar. „Ég vissi ekki að það tæki svona langan tíma að fá hana framleidda en hún er í bígerð en það er einhver bið. Nú er aðaláhyggjuefnið að hæpið verði dottið niður þegar hún svo loksins kemur. En það verða þá allavega einhverjar fimm, sex eða sjö plötuverslanir í Hollandi með hana.“