Niður­stöður nýrrar sviss­neskrar rann­sóknar benda til þess að það séu fleiri sýklar í skeggi full­vaxta karl­manns heldur en í feldi hunda en frá þessu er greint á vef BBC.

Vísinda­menn við Hirs­landen heil­brigðis­gæsluna tóku sýni úr and­lits­hárum 18 karl­manna og hálsi 30 hunda og báru saman fjölda baktería. Hundarnir voru af mis­munandi tegundum. Í um­fjöllun breska miðilsins kemur í ljós að mikill fjöldi baktería fannst í skeggi hvers einasta karl­manns á meðan einungis var há tíðni baktería í 23 hundum af 30.

Hinir hundarnir mældust með miðlungs­mikinn fjölda af bakteríum eða mjög fáar. Þá mældust 7 mannanna með það mikið magn baktería í skeggi sínu að hætta var á að þeir gætu veikst vegna þess.

Í um­fjöllun BBC kemur fram að rann­sak­endurnir komust að þessum upp­lýsingum fyrir mis­tök en upp­runa­legur til­gangur rann­sóknarinnar var að komast að því hvort menn gætu fengið hunda­sjúk­dóma í gegnum hár á and­liti.

„Rann­sak­endur fundu miklu hærri tíðni af bakteríum í sýnunum frá karl­mönnunum heldur en hundunum. Miðað við þessar niður­stöður er hægt að segja að hundar séu hreinir, miðað við skeggjaða karl­menn,“ segir prófessorinn Andreas Gutzeit, einn af höfundum rann­sóknarinnar.