Þrátt fyrir að hafa látist langt fyrir aldur fram, er Hendrix enn talinn einhver framsæknasti og hæfileikaríkasti gítarleikari sem uppi hefur verið. Snilligáfa hans og framlag til tónlistar er raunar svo mikilsvert, að blaðamaður að nafni Greg Tate skrifaði eitt sinn: „Sögu rafmagnsgítarsins má skipta í tvennt: Fyrir Hendrix og eftir Hendrix.“

Fínn í fjólubláum útvíðum buxum, silkiskyrtu og fjólubláu vesti.

Bágborin barnæska

Hendrix var fæddur 27. nóvember árið 1942 í Seattle í Bandaríkjunum. Hann var skírður Johnny Allen Hendrix en stuttu síðar breyttu foreldrar hans nafni hans í James Allen Hendrix. Hinn ungi James átti meðal annars rætur að rekja til Cherokee-ættbálks frumbyggja í Bandaríkjunum, í móðurætt.

Æska hans var þyrnum stráð. Báðir foreldrar hans glímdu við áfengisfíkn, sem litaði heimilislífið af rifrildum, ofbeldi og langvarandi atvinnuleysi föður. Þau skildu þegar Hendrix var níu ára og fékk faðir hans forræði yfir honum og yngri bróður hans. Um miðbik sjötta áratugarins tók Hendrix upp á því að drösla með sér kústskafti í skólann, sem hann lék á eins og það væri gítar. Sagan segir að félagsráðgjafi hafi tekið eftir þessu og leitast eftir fjárstyrk til að kaupa gítar handa honum. Kvað hún að ef hann fengi ekki gítar þá gæti það haft langvarandi sálræn áhrif. Viðleitni hennar var til einskis og faðir hans neitaði að kaupa gítar handa syni sínum.

Blómamynstur varð oft fyrir valinu.

Vaxandi velgengni

Árið 1957 áskotnaðist Hendrix illa farið úkúlele, sem átti að henda. Þrátt fyrir að það væri bara einn strengur eftir, byrjaði hann að æfa sig og kenndi sjálfum sér helstu nótur, meðal annars með því að hlusta á Elvis Presley og þá helst lagið Hound Dog. Þegar hann var fimmtán ára keypti hann svo fyrsta kassagítarinn sinn, á litla fimm dollara. Um svipað leyti, eða árið 1958, lést móðir hans af völdum áfengisneyslu.

Eftir skamma dvöl í hernum, sem Hendrix valdi fremur en fangelsi, eftir að hafa gerst sekur um smáglæpi á unglingsárunum, flutti hann til Tennessee og byrjaði að spila æ oftar, bæði með eigin hljómsveitum og öðrum, ásamt ýmsu tónlistarfólki. En þrátt fyrir að hafa spilað með goðsögnum á borð við Little Richard og Curtis Knight og sungið bakraddir fyrir Tinu og Ike Turner, var hann þó enn tiltölulega óþekktur í Bandaríkjunum.

Árið 1964 flutti hann til New York, bjó í tvö ár í Harlem og færði sig svo yfir í Greenwich Village þar sem hann kynntist Lindu Keith, kærustu Keith Richards. Linda kom honum í kynni við Chas Chandler, bassaleikara hljómsveitarinnar The Animals, og fyrir tilstilli Chas flutti Hendrix til Englands árið 1966, vopnaður hvítum Fender Stratocaster, krullurúllum og túpu af bólukremi.

Litríkur Hendrix á tónleikum í New York árið 1969. MYNDIR/GETTY

Hugvíkkandi tónar og tíska

Þær eru ýmsar sögurnar af komu Hendrix til Englands og þá ekki síst af viðbrögðum vinsælustu tónlistarmanna þess tíma. Paul McCartney ræddi nýverið kvöldið sem hann, ásamt Eric Clapton og Pete Townsend, sá Hendrix fyrst koma fram. Þeir sátu dolfallnir yfir hæfileikum Hendrix, sem meðal annars tók sig til og spilaði upphafslag Bítlaplötunnar og tímamótaverksins Sgt. Pepper‘s Lonely Hearts Club Band. McCartney þótti mikið til koma, enda hafði platan bara komið út tveimur dögum áður.

Á einum tímapunkti tóku McCartney, Townsend og Clapton eftir því að gítar Hendrix varð falskur eftir ofsafengið sóló. Hendrix brást við með því að skella upp úr og spyrja áhorfendur: „Er Eric á svæðinu? Ég þarf að fá hann hingað til að stilla þessa græju“. Eftir tónleikana er Clapton svo sagður hafa gripið í Chandler og látið eftirfarandi ummæli falla: „Þú sagðir mér ekki að hann væri svona djöfulli góður!“

Stuttu eftir komuna til Englands komst Hendrix svo í kynni við Noel Redding og Mitch Mitchell og úr varð hljómsveitin The Jimi Hendrix Experience, sem naut fljótt mikilla vinsælda.

Hendrix vakti eftirtekt hvert sem hann fór og ekki síst fyrir litríkan klæðaburð, sem fangaði frjálslegan tíðaranda líðandi stundar. Líkt og tónlist hans sem flæddi á milli ólíkra tegunda, var klæðaburður hans einstakur og án takmarkana.

The Jimi Hendrix Experience.

Hendrix notaðist mikið við „layering“ og paraði þannig saman ólíkar flíkur. Hann klæddist gjarnan litríkum og mynstruðum flíkum, iðulega úr munúðarvekjandi efnum, á borð við flauel og silki, og útvíðum buxum. Kögur, blúndur og jafnvel fjaðrir voru ekki óalgeng sjón og bar hann stundum hálsfestar eða annað skart, notaði hatta óspart og batt litríka klúta um höfuðið. Hér má sjá nokkrar myndir af eftirminnilegum klæðnaði þessa goðsagnakennda listamanns.