Hlaðvarpsþættirnir Kokkaflakk hófu göngu sína í síðustu viku en þeir eru í stjórn veitinga- og sjónvarpsmannsins Ólafs Arnar Ólafssonar. Hann hefur gert tvær sjónvarpsseríur undir sama nafni sem framleiddar voru af Skot Productions og sýndar á Sjónvarpi Símans. Vinnsla að þriðju seríunni var um það bil að hefjast þegar heimsfaraldurinn skall á.

Ólafur segist hafa gert sér grein fyrir því að eitthvað væri í það að hægt yrði að halda gerð þáttanna áfram, þar sem rauði þráðurinn í þeim snýst um að heimsækja Íslendinga víðs vegar um heiminn og ræða um mataráhuga þeirra. Í þáttunum ræðir Ólafur þó ekki bara um mat, heldur í raun og veru um allt milli himins og jarðar.

„Gerð þáttanna hefur verið alveg æðislega skemmileg. Við stefndum á að taka upp núna í sumar en það var ekki hægt út af dálitlu,“ segir Ólafur Örn kíminn.

Mataráhuginn víða

„Þetta eru upp að ákveðnu marki ekki síður ferðaþættir en matreiðsluþættir. Ég sem sagt heimsæki Íslendinga sem búa erlendis og ýmist starfa í matargeiranum eða hafa einfaldlega ástríðu fyrir mat. Við fáum svo að upplifa staðinn sem viðmælandinn býr á með hans augum. Svo kynnumst við líka manneskjunni sem er heimsótt, þetta er smá svona Maður er nefndur blandað við matreiðsluþátt,“ segir Ólafur Örn.

Ólafur hefur ferðast víða í þáttunum, til nokkurra borga í Bandaríkjunum, Dúbaí, Svíþjóð og Belgíu, svo að fátt eitt sé nefnt.

„Það er í raun ekkert eitt sem stendur upp úr nema þá kannski það hvað er til mikið af fólki sem hefur þennan brennandi áhuga á mat. Það hefur komið mér alveg skemmtilega á óvart. Við erum búnir að velja alla viðmælendur fyrir seríu þrjú og um leið og hægt verður að ferðast, þá förum við af stað,“ segir Ólafur Örn.

Aðlagaðist aðstæðum

Eins og svo margir aðrir þurfti Ólafur að hugsa í lausnum á þessum fordæmalausu tímum. Hann var farið að kitla eftir frekari þáttagerð en hann er sjálfur mikill áhugamaður um hljóðvarp.

„Ég lenti einmitt í því að ég slasaði mig og gat því ekki staðið vaktirnar á barnum mínum. Mér var farið að leiðast smá. Mig langaði að svala forvitni minni og athyglissýki og fékk þá hugmyndina um að gera hljóðvarp og ræða við fólk hér á landi sem er eitthvað að fást við mat.“

Hann segist halda mikið upp á það birtingarform sem hljóðvarpið er.

„Það er svo lítið af reglum. Ef viðtalið þarf að vera þrír klukkutímar, þá er það bara þrír klukkutímar. Það er ekkert „Jæja, núna verðum við að fara að ljúka þessu“ eins og er stundum í sjónvarpi. Maður getur klárað það sem maður hefur að segja,“ segir hann.

Nóg af viðmælendum

Ólafur fer um víðan völl með viðmælendum sínum þó að útgangspunktur þáttanna sé vissulega að ræða ástríðu viðkomandi fyrir mat og hvernig hún kom til.

„Í þættinum í síðustu viku kom kaffidrottning alheimsins, Sonja Grant, til mín. Við áttum alveg ótrúlega skemmtilegt spjall. Í þættinum sem kemur út í dag spjalla ég við veitingamanninn Jakob Magnússon sem rekur Hornið, sem er með elstu veitingastöðum í Reykjavík. Við fórum yfir þær breytingar sem hann hefur upplifað á veitingabransanum í gegnum tíðina. Við ræðum sögu hans fjölskyldu, staðarins og bransann almennt. Mjög áhugavert spjall og náttúrulega magnað að hann hafi náð að halda veitingastað gangandi öll þessi ár og það nokkuð veginn án þess að breyta neinu,“ segir Ólafur Örn.

Hann segir góðar líkur á að hann haldi áfram í hlaðvarpinu eftir að fyrstu seríunni lýkur.

„Já, algjörlega, ef mér heldur áfram að finnast þetta svona skemmtilegt, þá mun ég klárlega halda áfram. Ég er með alveg nóg af hugmyndum að áhugaverðum viðmælendum,“ segir hann.

Hlaðvarpið Kokkaflakk er framleitt af Hljóðkirkjunni, en þættina er hægt að nálgast á öllum helstu streymisveitum.