Það stóð til að opna þriðju seríu listahátíðarinnar Ég býð mig fram á Hafnartorgi í dag, en vegna hertra aðgerða í samkomutakmörkunum hefur opnuninni verið frestað um viku. Í ljós kemur svo hvort það gengur eftir. Ég býð mig fram er hugarfóstur dansarans Unnar Elísabetar Gunnarsdóttur. Hún segir að opnunin fari alltaf fram á endanum, þótt það verði að færa hana til vegna aðstæðna í þjóðfélaginu.

„Við erum enn þá að skoða hvort það sé möguleiki að opna í næstu viku. Sýningin er öll hönnuð út frá þessum COVID-reglum. Það er allt hólfað niður. Þetta er svokölluð ferðalagssýning. Fólk ferðast í fimm manna hópum innan um rýmið. Það eru engir snertifletir og allir eru með grímu. Þannig erum við bara að finna út úr þessu,“ segir Unnur Elísabet.

Stórleikur á klósettinu

Unnur hefur, líkt og áður kom fram, tvisvar áður staðið fyrir listahátíðinni Ég býð mig fram. Í fyrstu og annarri seríu fékk hún listafólk til að semja örverk, sem hún svo flutti ein á sviði.

„Þá var ég í hraðaskiptingum, alltaf að flytja nýtt og nýtt örverk. En nú er ég búin að snúa öllu við. Nú sem ég og leikstýri sýningunni og er með sextán flytjendur sem fara þá með verkin eftir mig. Það skapast alveg magnaður heimur. Áhorfendur flakka á milli þessara litlu stunda í lífinu, það er til dæmis ein klósettsena þar sem leikarinn á stórleik. “

Undirtitill hátíðarinnar í þetta skiptið er Á milli stunda og gerði Unnur Elísabet lag með Krassasig samnefnt sýningunni sem fylgir verkinu. Tónlistarmyndband við lagið hefur vakið mikla athygli, enda frumlegt og skemmtilegt.

„Myndbandið tengist beint þema sýningarinnar. Sýningin heitir Á milli stunda, eins og lagið. Þetta fjallar um allar litlu stundirnar á milli stóru atburðanna í lífi okkar. Allt þetta sem okkur finnst ekki skipta máli: vaska upp, heimilisstörfin, öll þessi litlu „móment“. En svo eru þessar stundir bróðurpartur lífs okkar, það sem skiptir mestu máli í raun. Akkúrat núna erum við svolítið föst í þessum millistundum, í þessu COVID-ástandi,“ segir hún og viðurkennið að það liti sýninguna mikið.

Gjöfult samstarf

Lagið vann Unnur Elísabet líkt og áður kom fram í samstarfi við tónlistarmanninn Kristin Arnar Sigurðsson, einnig er þekktur sem Krassasig. Hann syngur lagið með henni.

„Hann kemur á seríu eitt af Ég býð mig fram á sínum tíma, bara sem áhorfandi. Hann var svo hrifinn að hann vildi fara í samstarf, hann bað mig um að kóreógrafera myndband sem hann var að gera fyrir hljómsveitina sem hann er í, Munstur. Þannig hófst okkar samstarf. Svo var hann með sitt örverk í seríu tvö. Síðan höfum við unnið saman að alls konar verkefnum, hjálpumst að með ýmislegt. Nú erum við í okkar stærsta samstarfsverkefni til þessa, þar sem hann er að gera tónlistina og leikmyndina fyrir Á milli stunda, og ég að leikstýra. Við erum svo bæði líka að flytja verkið,“ segir Unnur Elísabet.

Hún segist hafa sungið mikið í gegnum tíðina, en Á milli stunda sé fyrsta lagið sem er gefið út.

„En bróðir minn er tónlistarmaður og ég hef verið mikið í kringum tónlist frá því að ég var lítil. En sjálf hef ég verið mest á sviði, á leiksviðinu, bæði þá að dansa og leika.“

Varð að fresta Veislu

Í myndbandinu leika svo allir flytjendurnir sem koma að sýningunni.

„Þau eru náttúrulega algjörir snillingar og flest vön því að koma fram. Leikarar, sviðshöfundar, dansarar. Rosalega flottur hópur af listafólki. Við vorum með vikulegan hitting þar sem ég kenndi þeim kóreógrafíuna, þannig að tökurnar gengu eins og í sögu. Þau bara gjörsamlega negldu þetta.“

Unnur Elísabet er nýlokin við leikstjórnarnám, sem upphaflega fór fram á Spáni. Hún var á lokaönninni þegar heimsfaraldurinn skall á og fór því lokasprettur kennslunnar fram netleiðis.

„Ég átti að vera þarna út ágúst en kom heim í mars. Það er ótrúlega sérstakt að vera að leika og leikstýra í gegnum Zoom, að flytja alls konar verk. En núna er ég búin að vera að vinna að því að kóregrafa fyrir verkið Veislu, við vorum alveg að fara að frumsýna þegar þriðja bylgjan skall á. Vonandi verður Veisla sem fyrst,“ segir Unnur Elísabet hlæjandi.

Ég býð mig fram: Á milli stunda verður sýnt um leið og aðstæður í þjóðfélaginu leyfa. Hægt er að fá forskot á sæluna á og sjá einstaklega skemmtilegt myndband Unnar Elísabetar og félaga á YouTube.