„Þetta er skemmtilegt, að fá þessa nafnbót og viðurkenningu,“ segir fjöllistamaðurinn Steinar Svan Birgisson, sem er listamaður ársins á listahátíðinni List án Landamæra sem Jón Gnarr setur í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan fimm í dag og stendur til 7. nóvember.

„Ég er ósjaldan búinn að taka þátt í þessari hátíð og það er sérstakur virðingarvottur að fá þessa viðurkenningu og heiður samhliða,“ segir Steinar.

„Þetta er jafnframt viðurkenning fyrir þau sem eru ekki með auðsýnilega fötlun, að það þurfi að kafa dýpra. Sökum þess að ég er til dæmis ekki í hjólastól þurfti að fylgjast með mér í einhvern tíma til þess að koma augum á fötlunina, en hún er til staðar og sannarlega er tilveran ekki eins auðveld hjá mér eins og kannski flestum,“ segir Steinar og heldur áfram: „Þannig er þetta líka ákveðin viðurkenning á stöðu þess fólks og það þykir mér mjög vænt um.“

Hátíðin er vegleg að vanda en hún fer að öllu leyti fram í miðborginni í ár, að sögn Davíðs Freys Þórunnarsonar skipuleggjanda. „Við leggjum undir okkur Ráðhúsið, Iðnó, Tjarnarbíó, Borgarbókasafnið í Grófinni, tvö gallerí – Flæði við Vesturgötu og Artak í Skipholti – og Dansverkstæðið í samstarfi við Reykjavík.“

Hann segir hátíðina gríðarlega fjölbreytta í ár. „Þetta er frekar fjölbreytt og það eru margir sem taka þátt,“ segir Davíð. Hann leggur áherslu á að hátíðin verði flæðandi og jafnvel óvæntir viðburðir.

„Og það kostar ekki á neina viðburði og við munum stuðla að því að þeir verði aðgengilegir fyrir alla,“ segir Davíð og bendir á Facebook-síðu hátíðarinnar en hver og einn viðburður er kynntur á samfélagsmiðlinum