Um 40 kýr sluppu úr kúabúi í suðurhluta Victoriu-fylkis í Ástralíu í síðustu viku og festist ein kýrin á trampolíni í garði nágranna.

Kýrnar sluppu rétt eftir miðnætti og fóru á beit hjá nágrönnum bóndans.

Kay Laing, konan sem fann kúna á trampolíni sínu, var alls ekki ánægð. Kýrin gat ekki haldið jafnvægi á trampólíninu og hafði lagst niður og neitað að standa aftur upp. Þurfti hún að nota dráttarvél til að lyfta kúnni sem vó 700 kíló.

„Allir á svæðinu vita að ég vil ekki fá kýrnar inn á landið mitt. Bændurnir voru allir rosalega stressaðir og hugsuðu: „Guð ég vona að kýrnar hafi ekki villst inn í garðinn til Kay“ en að sjálfsögðu þá var kýr í garðinum,“ sagði Laing í samtali við ástralska fjölmiðla.