Hlífar Óli Dagsson, fjórtán ára kynnir á leikjum Tindastóls í úrslitaeinvígi liðsins gegn Val, sló svo sannarlega í gegn þegar Tindastóll jafnaði einvígið í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Hlífar Óli settist svo í settið hjá Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport eftir leik þar sem hann reytti af sér brandarana og sagðist vera fæddur til að vera á sviði.

„Hann er það,“ segir Þyrey Hlífarsdóttir móðir Hlífars. „Hann er mikill leikari, klár á sviðinu og mikill karakter. Hann er fljótur að ná athyglinni hvert sem hann fer,“ segir hún.

Hlífar Óli lék einmitt í Ævintýrabókinni sem Leikfélag Sauðárkróks setti upp þar sem hann lék dverginn Kát og skemmti áhorfendum svo eftir var tekið.

„Hann hefur leikið með leikfélaginu. Hann hefur verið hérna í áhugamannaleikhúsinu og í nokkrum uppsetningum. Honum líður vel á sviði þar sem hann er miðpunktur athyglinnar,“ segir Þyrey.

Pabbi hans, Dagur Þór Baldvinsson, er formaður körfuknattleiksdeildarinnar, og þegar kynnirinn á leikjum Tindastóls forfallaðist var ekkert annað að gera en að rétta guttanum míkrófóninn sem reyndist lítið mál.

„Hann er snöggur að hugsa, óhræddur og þekkir alla leikmenn. Hann er ekki með blað þegar hann kynnir leikmenn inn og veit hvað allir heita og númer hvað þeir eru. Þekkir þjálfara beggja liða og dómarana og eins og hann sagði sjálfur á Stöð 2 Sport: hann er bara með þetta,“ segir hún og stoltið leynir sér ekki.

Þyrey segir að móðurhjartað hafi slegið örar þegar hann var búinn að kynna og settist í settið hjá Körfuboltakvöldi með kúrekahattinn í beinni útsendingu.

„Ég er mjög stolt af honum. Hann er dásamlegur karakter og hrífur alla með sér.“

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Hlífar Óli slær í gegn í stofum landsmanna því margir muna kannski þegar hann birtist í Alla leið og gat þulið upp keppendur, stig og alls konar fróðleik um Eurovision. Enda var mikið húllumhæ á heimilinu í gær þegar Systur stigu á svið.

„Hann þuldi þar upp hver fór fyrir Íslands hönd og hver vann langt aftur í tímann. Partíið heldur því áfram, bæði í körfunni og Eurovision,“ segir Þyrey.