Örn Tönsberg situr ekki auðum höndum þó að mörg okkar séu hreinlega neydd til þess í ástandinu sem nú ríkir. Örn hefur í seinni tíð verið þekktastur fyrir að vera tónlistar- og myndlistarmaður en undanfarna mánuði hefur hann sýnt listir sínar í eldhúsi Priksins og það við gerð á veganmat sem sannarlega hefur slegið í gegn.

„Seint á síðasta ári nálgaðist Geoffrey, eigandi Priksins, mig upp á að gera vegan pop-up eldhús á Prikinu. Að sjálfsögðu tók ég vel í þá snilldarhugmynd og út frá því fæddist B12. Þar gerðum við sveittan en grænan matseðil í samstarfi við Atla Snæ hjá Kore. Upphaflega stóð bara til að hafa þetta í Veganúar en vegna góðra undirtekta var ákveðið að halda áfram með verkefnið,“ skýrir Örn frá.

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að taka þátt í þessu verkefni?

„Í ljósi samkomubannsins blasti nýr tími við í rekstri. Meiri áhersla var lögð á heimsendingar og því virkjuðum við rafmagnshjólin til að snattast um nærhverfin með mat. Hægt er að sjá matseðilinn á Facebook-síðu Priksins og panta svo í gamla landlínusímann 551 2866.

Síðan nálgaðist Róbert Aron hjá RVK Street Food okkur um að taka þátt í ævintýrinu Götubiti á hjólum og við slógum til þar sem Matvagn Priksins var klár í slaginn.“

Hvað felst í þessu verkefni?

„Það er flóra af matvögnum sem fara saman í mismunandi hverfi frá fimmtudegi til sunnudags og mynda þar litla mathöll á bílastæðum sem eru illa nýtt í samkomubanninu.“

Hver er munurinn á hefðbundnum veitingastað og „veitingastað á hjólum“?

„Þú þarft ekki að fara inn að panta, auðvelt er að tryggja tvo metra frá viðskiptavinum og enginn undir sama þaki, þú getur líka beðið í bílnum á meðan maturinn er gerður klár og fengið sent beint í hann. Það eru líka fáir veitingastaðir sem koma með þessum hætti í hverfið þitt.“

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

„Vonum framar, viðtökurnar eru mjög góðar og fólk mjög sátt við svona skemmtilegt framtak á þessum tímum.“

Hverjir eru helstu viðskiptavinirnir?

„Það er öll flóran, aðallega fólk sem kann að meta alvöru sveittan skyndibita sem er 100% vegan.“

Hvað er næst á dagskrá?

„Að kynna nýjan matseðil á næstunni og halda áfram að trukka.“