Edda Björgvinsdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir, Kristbjörg Kjeld og Margrét Guðmundsdóttir munu í fyrsta sinn á löngum ferli leika saman og það í verkinu Ein komst undan, eftir Caryl Churchill, sem Borgarleikhúsið sýnir á næsta leikári. Þetta verður í fyrsta sinn sem Margrét leikur í Borgarleikhúsinu. Kristín Eiríksdóttir þýðir verkið og Kristín Jóhannesdóttir leikstýrir.

Ein komst undan er skrifað fyrir fjórar leikkonur og þar eru sögur eldri kvenna í forgrunni. Nágrannakonur sitja saman í bakgarði einnar þeirra og ræða saman. Leyndarmál og sársauki krauma undir.

Caryl Churchill er eitt helsta leikskáld Breta síðustu áratugi. Verk hennar einkennast venjulega af skarpri og óvenjulegri samfélagsrýni.