Fjórar er­lendar kvik­myndir fengu endur­greitt úr ríkis­sjóði á árinu 2020 en kvik­myndin sem fékk hæstu upp­hæðina endur­greidda var kvik­myndin The Midnight Sky sem stór­leikarinn Geor­ge Cloon­ey leik­stýrir sam­hliða því að leika eitt aðal­hlut­verk í myndinni.

Alls fékk kvik­myndin rúmar 313 milljónir endur­greiddar en í frétt RÚV um málið kemur fram að ef miðað er við 25 prósent endur­greiðslu hafi fram­leiðslu­kostnaður myndarinnar hér á landi numið um 1,3 milljörðum.

Líkt og Frétta­blaðið greindi var Cloon­ey staddur hér á landi við gerð myndarinnar í októ­ber en myndin er byggð á skáld­sögunni Good Morning Midnight eftir Lily Brooks-Dalton sem fjallar um tvo ein­stak­linga sem lifa af heims­endi. Fyrir­tækið True North sá um að að­stoða við tökur myndarinnar hér á landi en myndin er fram­leidd af Net­flix.

Tomorrow War og Eurovision fengu einnig endurgreitt

Aðrar kvik­myndir sem fengu endur­greitt voru spennu­myndin Tomor­row War, sem ber einnig titilinn Ghost Draft og er með Chris Pratt, sem var staddur á landinu í nóvember á síðasta ári, en myndin fékk alls 205 milljónir endur­greiddar.

Euro­vision myndin Story of Fire Saga með Will Ferrell og Rachel M­cA­dams, sem kom út í síðasta mánuði á Net­flix og var að mestu leiti tekin upp á Húsa­vík síðasta haust, fékk rúmar 135 milljónir endur­greitt.

Þá var það að lokum sjón­varps­kvik­myndin Love on Iceland sem fékk 75 milljónir endur­greiddar. Þrír er­lendir sjón­varps­þættir fengu einnig endur­greitt, þar af þættirnir Founda­tion sem fengu 165 milljónir endur­greiddar.

Hægt er að sjá yfir­lit yfir endur­greiðslurnar í heild sinni á vef Kvik­mynda­stöðvar Ís­lands.