„Ég var svo heppin að eignast tvo dásamlega drengi á miðjum aldri og ég hugsa að barnauppeldi eftir fertugt sé það sem hefur gefið mér mest í lífinu,“ segir Eva.

Bjarni Gabríel, 13 ára, hefur fetað í fótspor ömmu sinnar, leikkonunnar Eddu Björgvinsdóttur, en hann leikur Remó í Kardemommubænum, en einnig hefur hann komið fram í Áramótaskaupinu, Jólagestum Björgvins, lesið inn á teiknimyndir og fleira. Yngsti prinsinn á heimilinu er 10 ára og er hans fókus mest á stærðfræði, en báðir æfa þeir fótbolta hjá Fylki af mikilli ástríðu.

Eva Dögg býr til sitt eigið deig, en freistast þó stundum til að kaupa það tilbúið. Þá velur hún súrdeig.

Bakstur á fjölskyldukvöldum

„Þegar ég var yngri ólst ég upp við fjölskyldukvöld en þá var oftast bökuð pítsa og það frá grunni. Mamma og pabbi voru með séruppskrift sem þau bjuggu til sjálf, en þau kynntust pítsum fyrst á Ítalíu. Þau bjuggu þar úti um tíma en þegar þau komu heim fannst þeim úrvalið heldur slakt hér á landi, þannig að þau bjuggu til sína eigin leyniuppskrift af sósu og öllu tilheyrandi. Pítsurnar þeirra eru ógleymanlegar og ég sjálf geri þær stundum.“

Þegar Eva er spurð hvort fjölskyldan sé oft með pítsukvöld, svarar hún: „Já, og veistu að þetta eru bara langbestu kvöldin. Ég og maðurinn minn eigum bæði börn frá fyrra hjónabandi og stóran vinahóp og fjölskyldu og ég verð að segja að þessi kvöld eru ótrúlega vinsæl. Það er nefnilega svo gaman að búa þetta til og mikil stemning og svo getur líka hver og einn ráðið sinni pítsu. Annars gerum við bara ótal pítsur og skerum þær niður þannig að allir geti smakkað.“

Pítsuofninn sem Eva Dögg féll fyrir. Fjölskyldan bakaði humarpítsu úti á palli fyrir þáttinn Shark Tank sem sýndur var í Bandaríkjunum.

Kolféll fyrir úti-pítsuofni

Pítsurnar eru bakaðar í úti-pítsuofni úti á palli, sem skapar sérstaka stemningu.

Hver er tilurð þess að þið eignuðust úti-pítsuofninn góða?

„Þetta atvikaðist þannig að ég var að horfa á bandarískan þátt á Hulu þar sem fjölskyldan í þættinum var með eldhús í garðinum og var einmitt með svona úti-pítsuofn. Ég nefndi þetta við manninn minn, sem fór af stað og fann alveg geggjað bandarískt fyrirtæki, Bertello, sem framleiðir einfalda og afar öfluga pítsuofna. Við fengum svo sýnishorn og byrjuðum að baka á pallinum og þá var bara ekki aftur snúið.“

Þið fjölskyldan fóruð í viðtal í bandarískum sjónvarpsþætti þar sem þið bökuðu pítsur, hvernig atvikaðist það?

„Fyrirtækið Bertello byrjaði, eða öllu heldur fékk fjármagn, í þættinum Shark Tank í Ameríku, við vissum það nú ekki í upphafi en það voru sem sagt tveir frumkvöðlar sem vildu framleiða pítsuofn með öllu, sem sagt enginn falinn kostnaður. Það eru til ótal pítsuofnar, en þá ertu að kaupa ofn sér, spaða sér, stein sér og svo framvegis, sem þýðir að ofninn endar í mjög hárri upphæð. Bertello-strákarnir vildu gera góðan ofn á verði þar sem allt var innfalið sem til þarf. Þeir í Shark Tank féllu fyrir þessu og úr varð að þeir fóru af stað með fyrirtækið. Í sumar höfðu Bertello-strákarnir samband við okkur og báðu okkur að taka upp myndband af Bertello á Íslandi, því að Shark Tank ætlaði að skoða fyrirtækið nokkrum árum eftir að þeir fóru af stað. Úr varð að við tókum upp innslag á pallinum þar sem ég og strákarnir bökum íslenska humarpítsu. Strákunum finnst nú ekki leiðinlegt að hafa komið fram í þætti í Ameríku sem margar milljónir horfa á.“

Pítsan lítur glæsilega út þegar hún kemur úr ofninum.

Hvernig virkar Bertello-pítsuofninn?

„Hann virkar þannig að það eina sem þú þarft er gaskútur og hráefni, allt annað fylgir með í pakkanum. Ég hita minn í sirka hálftíma á fullu blasti og lækka svo niður í honum og byrja að eldbaka, en það tekur mest 2 mínútur að baka pítsuna. Þú þarft samt að snúa henni allan tímann því þetta gerist hratt. Ofninn tekur 12 tommu pítsu og það er mikilvægt að vera með durum hveiti undir svo að botninn festist ekki við steininn,“ segir Eva.

Eva segist oftar en ekki kaupa tilbúið deig í dag. „Nýjasta æðið mitt er að kaupa deig hjá Brauð & Co eða í Bónus og þá vel ég helst súrdeigið. Þetta auðveldar mér pítsugerðina til muna og allt er hreinna og miklu minna vesen að halda risa pítsukvöld. Ég hef búið til ótal pítsudeig í gegnum tíðina og er hætt að mæla, ég sé bara hvað ég þarf mikið, en upprunalega uppskriftin er svona:

Heimatilbúið pítsudeig

180-200 ml volgt vatn

1 bréf af þurrgeri

¾ tsk. salt

2-2 ½ bolli hveiti

2 msk. ólífuolía

Ég læt deigið hefast í sirka 30 mínútur, eða þar til það hefur tvöfaldast.

Það er mikilvægt að hafa í huga að þegar maður er að búa til pítsur í Bertello ofninum þá borgar sig ekki að hafa þær of stórar og ekki of þunnar, nota nóg af durum hveiti og bara prófa sig áfram.

Uppáhaldspítsurnar

Uppáhaldspítsusósa Evu er frá Mutti, en hún kostar mjög lítið og fæst öllum verslunum.

„Ég hef verið að prófa ýmislegt ofan á, en nýjasta æðið mitt er humarpítsa en ég kaupi frosinn, lítinn, skelflettan humar í matvöruverslun og steiki upp úr smjöri, hvítlauk og steinselju og set á pitsuna og skelli stundum klettasalati yfir.

Sömuleiðis elska ég ostapítsu. Þá kaupi ég rifinn piparost, gráðost, mozzarellakúlur, camembert, eða bara það sem mér dettur í hug og þá er mikilvægt að hafa rifsberjahlaup með. En grunnurinn er alltaf sósa og rifinn pítsuostur.

Uppáhaldspítsan hans Bjarna Gabríels er með hráskinku klettasalati og mozzarella en uppáhaldið hans Viktors Áka er með þunnskorinni skinku, beikonbitum og mozzarellaosti.

Uppáhaldseftirréttarpítsa fjölskyldunnar er með Nutella, en þá er botninn næstum fullbakaður, síðan er Nutella smurt yfir botninn og bakað í smástund í viðbót. Síðan er Nutellabotninn toppaður með jarðarberjum og bláberjum.

Leyniuppskrift Eddu Björgvins og Gísla

3 tómatpaste-dósir

3 tómatpaste-dósir af AB mjólk á móti

3-4 kramin hvítlauksrif

2-3 msk. púðursykur, eða eftir smekk

3 msk. ólífuolía

Stundum bý ég til leynisósu mömmu og pabba en hún er meira fyrir örþunnar pítsur og þá nota ég alltaf óðalsost og olíu á pítsuna, ekkert annað álegg.