Þrátt fyrir að það sé harla óvenjulegt sumar í vændum og eitthvað lítið um utanlandsferðir þýðir það ekki að það þurfi að vera neitt minna gaman en venjulega. Það eru ýmsar einfaldar leiðir fyrir fjölskylduna til að eyða frítíma sínum saman svo að allir geti notið sumarfrísins og jafnvel styrkt böndin um leið.

Bókaklúbbur

Ein leið til að hvetja börn til að lesa meira er að stofna bókaklúbb fyrir fjölskylduna. Það er um að gera að leyfa barninu að velja bókina, svo þegar allir eru búnir að lesa hana er hægt að koma saman og ræða hana. Hægt er að ræða það sem ykkur fannst gott, slæmt, áhugavert, spennandi eða skrítið við bókina. Þetta getur verið góð leið til að fá börn til að hugsa með gagnrýni um afþreyingarefni og fá meira út úr bókinni en ef þau myndu bara lesa ein. Svo er þetta ágæt leið til að viðhalda námsfærni.

Fjölskyldumáltíðir

Það getur stundum verið erfitt að finna tíma fyrir alla fjölskylduna til að borða saman, en það borgar sig alltaf. Til að gera meira úr máltíðinni er hægt að fá börnin með í lið við að velja matinn, kaupa inn í hann og elda. Þá læra þau á innkaup og matseld, fá dýpri skilning á því hvað felst í að hafa tilbúinn mat á borðum á hverjum degi og eftir matinn er hægt að ræða það sem þau lærðu. Það er aldrei að vita nema upprennandi kokkur kynnist köllun sinni og þetta getur líka verið góð og regluleg hversdagsleg skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Spilið leikina þeirra

Það eru örugglega margir foreldrar sem kannast við það að sjá börnin sín leika sér í alls kyns leikjum og tölvuforritum sem þeir hafa lítinn skilning á. Þegar veður er vont og það er ekki hægt að fara út gæti verið góð hugmynd að læra á leikina og skilja hvað þeir ganga út á. Það tryggir bæði að börnin séu ekki að stunda eitthvað sem foreldrarnir vilja ekki og gæti jafnvel leitt til sameiginlegra áhugamála ef leikirnir heilla foreldrana. Þá geta þeir orðið leið til að styrkja böndin og kenna börnunum mikilvægar lexíur eins og hvernig á að vinna með öðrum og bæði vinna og tapa með reisn.

Farið í bíltúr

Bíltúrar eru sígild fjölskylduskemmtun og góð leið til að skoða fallega landið okkar. Það er margt skrítið og skemmtilegt að sjá á eyjunni okkar, svo það þarf aldrei að fara langt til að sjá eitthvað markvert og það er auðvelt að finna eitthvað nýtt og áhugavert.

Finnið sumarverkefni

Ein leið til að ná öllum saman er að búa til verkefni sem öll fjölskyldan þarf að vinna saman. Það er til dæmis tilvalið að nýta frítímann í að gera fínt í garðinum eða byggja eitthvað, til dæmis skúr, kofa eða safnhaug. Það er líka hægt að gera eitthvað innandyra, eins og að púsla og föndra saman, byggja tölvu eða hvað sem ykkur finnst skemmtilegt.