Þegar hjónin Hildur Hlíf Sigurkarlsdóttir og Alex Viðar Santos, voru að prufa sig áfram með hollari valkosti fyrir börnin sín, duttu þau niður á ávaxtablöndur sem hittu í mark hjá krökkunum. Þau ákváðu því að ganga skrefinu lengra og hefja einfaldlega framleiðslu á frostpinnum, sem þau kenna við Jaka.

Þótt íspinnar séu kannski ekki það fyrsta sem fólki dettur í hug í myrkum og oft hrollköldum janúarmánuði, ákváðu þau að láta slag standa, enda ekki eftir neinu að bíða, og hófu sölu á Jaka í síðasta mánuði.

Markaðsrannsóknin sem þau gerðu á börnum sínum í eldhúsinu heima virðist enda hafa skilað áreiðanlegum niðurstöðum, því viðtökurnar hafa verið býsna góðar.

„Fólki finnst skrítið að ég hafi hætt í vinnunni minni og farið að framleiða frostpinna,“ segir verkfræðingurinn Alex, sem tók þarna ískalda stefnubreytingu og segir Hildur hugmyndina hafi sprottið upp úr tilraunastarfsemi í eldhúsinu heima þegar þau voru að reyna að finna hollari kost fyrir börnin sín tvö.

„Það kom virkilega skemmtilega á óvart hversu vel blandan heppnaðist. Við vorum búin að breyta hlutföllunum og lentum á nokkrum góðum pinnum sem krakkarnir elskuðu,“ segir Hildur ánægð með afraksturinn.

Slegið til í miðjum faraldri

Eftir nokkrar tilraunir í eldhúsinu sáu þau Hildur og Alex tækifæri sem gæti fært þau nær draumnum, með því að breiða út bragðgott fagnaðarerindið, sem hófst með leitinni að hollari valkosti fyrir börnin þeirra.

„Við ákváðum að slá til eftir að við vorum búin að prófa okkur áfram og höfðum trú á að við værum með eitthvað gott í höndunum,“ segir Alex og bætir við að gestir og gangandi hafa dásamað bragðið af Jaka.

Nafnið kom frá ömmu

„Eftir töluverða leit að aðstöðu til að vinna vöruna enduðum við á Eldstæðinu, sem er deilieldhús í bakgarðinum hjá okkur,“ heldur Alex áfram. Eldstæðið er atvinnueldhús fyrir matarfrumkvöðla og smáframleiðendur og byggir á deilihagkerfi og eftir að þau leituðu þangað komust þau svo gott sem alla leið með að láta drauminn rætast.

Hildur segir aðspurð að Jaka- nafnið hafi komið upp í fjölskylduboði. „Amma mín kom með nafnið í vor og það eiginlega bara smellpassaði. Vinkona okkar Katrín Inga Frantzdóttir hannaði svo myndina af ísbirninum Jaka sem er á umbúðunum,“ segir hún og hlær.