Óttar Guð­munds­son geð­læknir er nýjasti gesturinn í hlað­varps­þætti Sölva Tryggva­sonar. Þar segir Óttar meðal annars að um­ræðan vegna CO­VID-19 heims­far­aldursins hafi farið úr böndunum. Hægt er að hlusta á hlað­varpið hér að neðan og er það jafnframt að­gengi­legt á Spoti­fy.

„Það er voða­lega erfitt að fara inn í þessa um­ræðu af ein­hverju viti eins og hún er núna. Ég skrifaði grein fyrir nokkrum mánuðum í upp­hafi far­aldursins og var þá að tala um ham­fara­blæti sem ég kallaði í sam­fé­laginu,“ segir Óttar. Sá pistill birtist í Frétta­blaðinu í febrúar síðastliðnum.

„Þá var það ekki bara kórónu­veiran, heldur vorum við líka að tala um yfir­vofandi eld­gos fyrir utan Grinda­vík og það var hver frétta­tíminn á fætur öðrum og það var verið að tala við ein­hverja spekinga fyrir framan landa­kort sem voru að velta því fyrir sér hvaða flótta­leiðir Grind­víkingar ættu að nota ,,þegar” eld­gosið kæmi, en ekki ,,ef” það kæmi…í versta falli átti að fara sjó­leiðina…..og allir sem efast eitt­hvað um að þetta sé svona slæmt eru bara af­skrifaðir, þannig að menn þora ekki í þessa um­ræðu.

Það verður til mikil pressa á ein­stak­linginn að taka þátt í þessu, þannig að menn taka ekki þessa um­ræðu,” segir Óttar, sem telur að fólk sé hrein­lega hrætt við að taka um­ræðu af ótta við að vera út­hrópað. Hann segist finna það mikið í störfum sínum sem geð­læknir að geð­heilsa lands­manna hafi versnað mikið.

Óttar segir að hann finni það í starfi sínu að þetta tíma­bil sé að ýta undir allar tegundir geð­sjúk­dóma.

„Það hefur orðið aukning í komum til sál­fræðinga, geð­lækna og inn á bráða­mótt­töku geð­deildar og margir sem voru með undir­liggjandi geð­sjúk­dóm hafa upp­lifað þessa ógn mjög sterkt og þetta er eitt­hvað sem hefur gert þeirra sjúk­dóm verri,“ segir Óttar, sem segir fjöl­miðla­um­ræðu um Co­vid hafa farið úr böndunum:

„Fjöl­miðlar hafa náttúru­lega gengið alveg af göflunum í þessarri Co­vid um­ræðu. Þetta er orðin allt of mikil um­ræða og Co­vid eru fyrstu fjórar fréttirnar á RÚV alltaf,“ segir Óttar.

„Það er alltaf verið að tala um nýjar tölur í Co­vid svona svo­lítið eins og það sé verið að segja hálf­leiks­tölur í fót­bolta­leik, hvað hafa margir smitast og hvað eru margir í ein­angrun og svo fram­vegis og fólk bíður eftir nýjustu tölum bara eins og á kosninga­kvöldi eftir nýjustu tölum úr kraganum. Ógninni er við­haldið og það er alltaf verið að minna fólk á að þetta séu víð­sjár­verðir tímar og for­dæma­lausir tímar og þetta finn ég hjá mínum sjúk­lingum að þetta hefur á­hrif, þessi stöðuga ógn. Það er alltaf verið að minna á þessa ógn.“