Laugavegurinn er ein fjölfarnasta og vinsælasta gönguleiðin um íslensk öræfi. Venjan er að ganga leiðina á fjórum dögum en methlaupatími á þessari 55 km leið er 3 klukkustundir og 59 mínútur í karlaflokki, sem Þorbergur Ingi Jónsson á, og 4 klukkustundir og 55 mínútur í kvennaflokki, en það met setti Andrea Kolbeinsdóttir í hlaupinu í fyrra þegar hún varð fyrst kvenna að fara undir 5 klukkustundir. Keppt er í sex aldursflokkum og fyrstu þrjár konur og fyrstu þrír karlar í hverjum aldursflokki fá verðlaunagrip. Auk þess er keppt í þremur aldursflokkaskiptum sveitum, kvennasveit, karlasveit og blandaðri sveit. Efsta sveitin í hverjum aldursflokki fær verðlaun og gripirnir eru því 50 sem Dagný hefur búið til fyrir hlaupið í ár.

Verðlaunagripirnir eru fjallavasar eftir Dagnýju. Hönnun vasanna er byggð á því hvernig börn teikna fjöll, eins og þríhyrninga með snjó á toppnum.

„Þetta eru þrír vasar með mismunandi áferð fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti. Vasarnir tengjast hlaupinu á þann hátt að þeir tákna fjöllin allt í kring,“ segir Dagný en hún hefur hannað fjallavasa í nokkurn tíma.

„Kveikjan að hönnuninni á fjallavösunum varð fyrir nokkrum árum en þá sýndi ég fyrsta litla fjallið á Hönnunarmars. Síðan þá hefur fjallafjölskyldan stækkað og ég hef gert nokkrar stærðir og gerðir af fjallavösum. Hönnunin er innblásin af því hvernig börn teikna fjöll. Fjöll eru mismunandi í laginu og hvert og eitt er fallegt á sinn hátt, en börn tákna fjöll oft á einfaldan hátt, sem þríhyrninga með snjó á toppnum. Þaðan kemur minn innblástur, ég sæki mikið innblástur í barnæskuna í minni hönnun.“

Laugavegshlaupið er í dag og vinningshafa í hverjum flokki munu hreppa fjallavasa. MYND/AÐSEND

Heillast af fjöllum

Dagný heillast mikið af fjöllum og fær innblástur af að horfa á þau, þótt hún gangi ekki mikið á fjöll.

„Fjöllin eru táknræn fyrir Ísland, finnst mér, ég hef ekki klifið há fjöll en ég hef farið á Esjuna. Ég heillast alltaf af því að horfa á fjöll, þau eru svo kraftmikil. Þess vegna byrjaði ég að hanna fjallavasa, mér finnst það líka svo viðeigandi af því leirinn kemur úr jörðinni og tengist þannig fjöllunum.“

Dagný er keramikhönnuður í fullu starfi og hannar undir nafninu DayNew.

Dagný hannar undir nafninu DayNew. MYND/ÍRIS STEFÁNSDÓTTIR

„Ég hef starfað við þetta í átta ár, eða frá því ég útskrifaðist á Englandi,“ segir Dagný sem útskrifaðist með BA-gráðu árið 2014 frá The University of Cumbria. En þar áður var hún í tvö ár í diplómanámi í keramik í Myndlistaskólanum í Reykjavík.

„Ég legg áherslu á að í hönnun minni séu glaðlegir litir og skemmtileg form. Ég nota hálfgegnsætt postulín til að búa til kertastjaka og ljóskúpla. Á lokaárinu í Englandi sérhæfði ég mig í að renna í gifs á gifsrennibekk og búa til sérstök gifsmót og gifsmastera,“ segir Dagný.

„En nýjasta línan mín samanstendur af ýmiss konar útfærslum af fjöllum. Ég hef búið til smáfjallavasa, fjallastjaka og fjallavasa.“

Það lá því beint við, þegar Dagný var beðin um að búa til verðlaunagripi fyrir Laugavegshlaupið, að hanna sérstaka fjallavasa fyrir það tilefni. Þessa dagana er Dagný að undirbúa nýja hönnun sem verður sýnd í nóvember.

„Þetta er ný vörulína sem kemur fyrir jól og ég er mjög spennt að sýna hana. Það er spennandi að sjá hugmyndir verða til og þróast áfram. Ég er svo heppin að vera í starfi sem ég elska og er skemmtilegt en krefjandi. Ég er virkilega þakklát fyrir góðar viðtökur á Íslandi, fólk er farið að meta íslenska hönnun betur,“ segir Dagný og bætir við að henni finnist virkilega gaman að fá fólk í heimsókn á vinnustofuna sína og í Kaolin gallerí þar sem hægt er að kaupa hönnun hennar. Það verða heppnir hlauparar sem fá að fara heim með fjallavasa frá Dagnýju í kvöld.