Fyrirsætunni Sigurði Hrannari er fátt ofviða en hann hefur staðið í marki HK, leyst Mads Mikkelsen af í Star Wars og er að læra að setja í vél og þrífa klósett auk þess sem hann rataði nokkuð óvænt í sjónvarpssal hjá Viaplay þar sem hann stýrir útsendingum frá Meistaradeildinni.

Sigurður Hrannar Björnsson var við nám í Danmörku í vor þegar hann fékk „lýsingargigg“ hjá efnisveitunni Viaplay. Síðan má segja að hann hafi elt Viaplay til Íslands sem varð til þess að hann mun halda utan um útsendingar frá Meistaradeildinni.

„Þegar ég flyt svo aftur til Íslands er Viaplay nýkomið hingað þannig að ég spyr bara Hjörvar hvort ég geti ekki fengið að lýsa eitthvað hér heima,“ segir Sigurður Hrannar sem leitaði ekki síst til Hjörvars Hafliðasonar, íþróttastjóra Viaplay á Íslandi, þar sem lýsingarnar skila ágætis tekjum meðfram námi og þess háttar.

„Og hann í rauninni segir mér bara að hann vilji ekki hafa mig í lýsingunum heldur í stúdíóinu. Það er spurning hvort honum hefur bara ekki fundist ég góður lýsandi en ekki þorað að reka mig almennilega,“ segir Sigurður léttur áður en hann dregur í land. „Nei, ég segi bara svona.“

Tveir traustir á kantinum

Viaplay og Sýn deila útsendingarréttinum frá Meistaradeild Evrópu á Íslandi og Sigurður Hrannar lofar veislu sín megin þar sem hann verður í setti í beinni útsendingu frá Danmörku með þá Rúrik Gíslason og Frey Alexandersson sér til halds og trausts. Sigurður hefur aldrei stýrt slíkum útsendingum áður og segist þakklátur fyrir félagana tvo.

„Ég er náttúrlega ekki með neina reynslu af svona þáttagerð, eða þáttastjórnendastarfinu, þannig að ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í,“ segir Sigurður. „Við mætum þarna til Danmerkur í fyrsta giggið og Daninn er náttúrlega svo skipulagður, sko.

Það þarf allt að vera uppstrílað og eins og Hjörvar sagði þá er hann búinn að vinna í sjónvarpi árum saman og hann hafði aldrei séð annað eins skipulag og prófessjónalisma. Þannig að ég er að stíga beint inn í þetta umhverfi sem er mjög ólíkt því íslenska. En það er bara frábært. Við viljum hafa þetta eins fagmannlegt og hægt er.“

Sigurður Hrannar gerði sér lítið fyrir og gerðist staðgengill Mads Mikkelsen í Stjörnustríðsmyndinni Rogue One.

Lifir fyrir boltann og leiklistina

Sigurður segist aðspurður vera réttur maður á réttum stað í stúdíói Viaplay þar sem fótboltinn hefur verið hluti af lífi hans frá því hann man eftir sér.

„Ég kem úr mikilli Víkingsfjölskyldu og fótbolti hefur nánast bara verið umræðuefni við matarborðið hvert einasta kvöld frá því ég var lítill og mér þykir mjög vænt um fótboltann,“ útskýrir hann.

Knattspyrnan á þó ekki hug Sigurðar allan og þar er einnig pláss fyrir leiklistina og hann hefur náð það langt á þeim velli að hann var á sínum tíma í hlutverki staðgengils dönsku stórstjörnunnar Mads Mikkelsen við tökur á Star Wars- myndinni Rogue One hér á landi.

Á bílaleigubíl út í geim

„Það var svakalegt. Það var eitthvert sumarið, í júní, ég man ekki nákvæmlega hvaða ár sem mér hafði verið sagt að ég gæti mögulega fengið mjög spennandi verkefni og ég ætti að taka lok ágúst frá. Ég mátti ekkert vita fyrir hvað það var eða neitt þannig,“ útskýrir Sigurður.

Síðan líður og bíður og hann heyrir ekkert frekar af verkefninu fyrr en móðir hans bendir honum á að hann ætti fimmtán símtölum ósvarað í símanum. „Og þá er það bara frá teyminu í kringum myndina og ég fékk bara leiðbeiningar að fara niður á bílaleigu og fá bíl. Svo fékk ég GPS-hnit og fylgdi þeim eitthvert upp á hálendið þangað til ég var bara kominn í Star Wars-grunnbúðirnar.“

Það mætti halda að þú gætir allt. Er eitthvað sem þú getur ekki gert?

„Jú, jú, það er hellingur sem ég get ekki gert,“ segir Sigurður og skellihlær. „Ég er nýbyrjaður að læra að setja í vél og þrífa klósett og svona,“ segir hann glottandi.

Markið sett hátt

Þegar talið berst aftur að jarðbundnara Viaplay-ævintýrinu segist Sigurður gríðarlega spenntur fyrir vetrinum í stúdíóinu. „Við erum allir í stúdíóinu og allt teymið er ótrúlega spennt fyrir því sem er að gerast,“ segir Sigurður og bætir við að mannskapurinn sé mjög öflugur áður en hann telur upp; fótboltadoktorinn Hjörvar Hafliða, Jóa Skúla, sem þekktur er fyrir podkastveituna Draumaliðið, Vilhjálm Siggeirsson pródúsent og boltakappana fyrrnefndu Rúrik og Frey.

„Þetta bara frábær hópur og ég hefði ekki getað óskað mér betri einstaklinga heldur en Freys og Rúriks til að hjálpa mér í gegnum fyrsta kvöldið. Það var mjög þægilegt að vinna með þeim og okkur langar að taka íslenskt sjónvarpsefni í kringum fótbolta upp á næsta „level“ og reyna að ná alþjóðlegum standard.“