Að vera heima og slaka á í heimsfaraldri COVID-19 er æðsta dyggð mannlegs samfélags á þeim skrítnu tímum sem við upplifum nú. Að horfa á sjónvarpið, baka tertu, fá sér súrdeigsbrauð og að drekka te eru allt ásættanlegar dægrastyttingar í hvirfilbyli veirufárs.
Sumir láta það sér hinsvegar ekki nægja. Sumir stytta sér stundir með ástaratlotum, kærleikshót, blíðulátum, samræði og kjassa, klappa og strjúka hvort öðru heima fyrir.
Hér erum við að sjálfsögðu að tala um þá sem fjölga sér í heimsfaraldri. Sérfræðingar eru eflaust sammála um það að kófið muni valda barnasprengju og ef marka má samantekt Fréttablaðsins er ljóst að það stefnir í sannkallað K-A-B-Ú-M-M árin 2020-2021.
Como hjón Íslands fá fjórða fjölskyldumeðliminn
Fyrst á lista yfir þá sem fjölga sér í faraldri eru þau Gylfi Sigurðsson, knattspyrnugúrú og Alexandra Helga Ívarsdóttir, skartgripahönnuður sem flestum Íslendingum eru vel kunnug.
Þau giftu sig í stærsta stjörnubrúðkaupi Íslands við Como vatn á norður Ítalíu í júní í fyrra en brúðkaupið vakti mikla athygli.
Þann 11. desember síðastliðinn tilkynnti Gylfi á Instagram að bráðlega muni litli hundurinn þeirra Koby eignast systkin og fjölskyldumeðlimir því brátt fjögur talsins í stað þriggja.
Kannski ekki elsti pabbinn en allavega sá hamingjusamasti
Vinsælasti sjónvarpsmaður Íslands Auðunn Blöndal og kærastan hans Rakel Þormarsdóttir eiga von á sínu öðru barni á næsta ári.
Þau eignuðust sitt fyrsta barn saman, Theódór Sverri Blöndal í nóvember árið 2019. Sagði Auddi við það tilefni: „Veit ekki hvort ég sé elsti pabbi landsins, en get staðfest að ég er 1 sá hamingjusamasti í dag!“
Auðunn greindi frá gleðitíðindunum í október síðastliðnum en nýjasti fjölskyldumeðlimur Blöndal fjölskyldunnar er væntanlegur í maí 2021.
Hvað er að gerast hérna 🙈 Verðum fjögur í maí 🥰🍼👨👩👧👦
Posted by Auðunn Blöndal on Friday, 23 October 2020
Fleiri fjóreyki myndast á næsta ári
Það eru fleiri fjölskyldur sem brátt verða fjögurra manna fjölskyldur í faraldri en Arna Ýr Jónsdóttir, fyrrverandi Ungfrú Ísland og Miss Universe Iceland tilkynnti í desember að hún og Vignir Þór Bollason eiga von á sínu öðru barni saman árið 2021.
Fyrir eiga þau saman dótturina Ástrós Mettu sem er eins og hálfs árs en Arna Ýr sagði frá komu hennar í Instagram-færslu á sínum tíma.
„Heilbrigða 15 marka stúlkan okkar Vignis fæddist í gærkveldi eftir langa en afar góða fæðingu í Björkinni. Erum yfir okkur ástfangin af litlu hárprúðu dúllunni okkar og þakklát fyrir hversu heilsuhraust hún er.“
Í fallegri færslu á Facebook þann 15. desember síðastliðinn skrifaði Vignir: „Við erum búin að opinbera að í júní 2021 verðum við fjögur," skrifaði Vignir Þór á Facebook.
Litla Ásta tekur við stöðuhækkun í maí
Einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar, Sverrir Bergmann og lögfræðingurinn Kristín Eva Geirsdóttir eignuðust sitt fyrsta barn í byrjun febrúar, litlu Ástu Berthu.
Í maí næstkomandi munu þau svo eignast sitt annað barn líkt og þau greindu frá í fallegri Instagram færslu.
„Tek við stöðuhækkuninni í maí og hlakka ótrúlega til þess ábyrgðarhlutverks,“ segir Sverrir í færslunni og birtir fallega fjölskyldumynd þar sem sú unga Ásta Bertha var klædd í galla sem var merktur „ég er að verða stóra systir.“
Lítill king mætti á svæðið í desember
Tónlistarmaðurinn og útvarpsmaðurinn Joey Christ, eða Jóhann Kristófer Stefánsson og unnusta hans, Alma Gytha Huntingdon-Williams eignuðust sinn fyrsta son í byrjun desember.
Jóhann birti fyrstu myndina af hinum litla á Instagram. Þar skrifaði hann „Litli King“ og dagsetningu 4. desember 2020. Gera má ráð fyrir að það sé fæðingardagur drengsins sem klæddist fallegu prjónuðu grænu setti og var ansi sposkur á svip.
Parið lét lítið fyrir óléttunni fara í aðdraganda fæðingarinnar. Tilkynntu hana ekki opinberlega fyrr en í október á Instagram. Þar deildi Jóhann fallegri mynd af parinu og skrifaði einfaldlega: „Mánuður í að litli homie mæti á svæðið."
Arnór og Vigdís eignuðust sitt fyrsta
Arnór Dan Arnarsson, söngvari Agent Fresco og sambýliskona hans, Vigdís Hlíf Jóhönnudóttir eignuðust sitt fyrsta barn þann 17. október síðastliðinn.
„Fallega dóttir okkar kom í heiminn þann 17. október," skrifaði Arnór á Instagram þegar parið tilkynnti gleðitíðindin.
„Þakklátur og ótrúlega spenntur fyrir næsta kafla okkar saman,“ skrifaði hann svo. Parið tilkynnti um óléttuna í apríl á þessu ári.
Sjallabörnin eignast erfingja í apríl
Lögfræðingurinn Anna Ýr Johnson og Páll Magnús Pálsson, varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, munu eignast sitt fyrsta barn í apríl 2021.
Athygli vakti og vekur eflaust enn að Anna er stjúpdóttir utanríkisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á meðan Páll Magnús er sonur Páls Magnússonar, þingmanns Sjalla í Suðurkjördæmi.
Parið tilkynnti um komu frumburðarins í fallegri færslu á Instagram sem birtist í október síðastliðnum. Líklegt verður að teljast að erfinginn verði skráður í Sjálfstæðisflokkinn hið fyrsta.
Fræðingar fjölga sér í faraldri
Stjörnufræðingurinn Sævar Helgi Bragason og hugbúnaðarsérfræðingurinn Þórhildur Fjóla Stefánsdóttir fjölga sér í faraldrinum og eiga von á barni á næsta ári.
Þórhildur tilkynnti þetta í einlægri færslu á Twitter í nóvember. Þar birtir parið mynd af sér með sónarmynd. Ljóst er að lítill drengur er væntanlegur í heiminn.
„Sævarsson, það sem við hlökkum til að hitta þig,“ skrifar Þórhildur Fjóla við myndina.
Sævarsson, það sem við hlökkum til að hitta þig ❤️🥰 pic.twitter.com/OX0SKPJOVd
— Þórhildur Fjóla Stefánsdóttir (@thorhildurfjola) November 12, 2020
Stefnir í að 2021 verði veisla
Einkaþjálfarinn og útvarpsmaðurinn Egill Einarsson, eða Gillzinegger og kærasta hans Guðríður Jónsdóttir eiga von á sínu öðru barni saman í maí á næsta ári.
Fyrir eiga þau saman eina dóttur, Evu Malen sem er fædd árið 2014 en Egill og Gurrý hafa verið par í tæpan áratug.
Egill tilkynnti um nýjasta fjölskyldumeðliminn á Instagram á jóladag.
„Stefnir í að 2021 verði veisla. Eva Malen er að ofpeppast hérna heima en hún er að fara að fá lítinn bróðir í maí. Gleðileg jól allir vona þið hafið það frábært," skrifar Egill lukkulegur.
Aron og Kristbjörg eignast brátt þriðja erfingjann
Aron Einar Gunnarsson, fótboltamaður og Kristbjörg Jónasdóttir, einkaþjálfari, eignuðust sitt þriðja barn í október síðastliðnum.
Fyrir áttu þau synina Ólíver og Tristan og bættist þriðji sonurinn í hópinn.
„Nú eigum við annan dreng til að elska og deila lífinu með. Ólíver og Tristan eru báðir svakalega að hitta nýja litla bróður sinn,“ skrifaði Aron.