„Þetta er í fjórða skipti sem samsýning norðlenskra listamanna er haldin í safninu. Þegar ég tók við starfi safnstjóra 2014 fannst mér mikilvægt að sinna grasrótinni og sýna reglulega verk norðlenskra listamanna,“ segir Hlynur.

Á sýningunni eru verk eftir sautján listamenn, valin af dómnefnd. „Þessi sýning er eina sýningin sem listamenn geta sótt um að taka þátt í og dómnefnd velur verk til sýningar. Vegna niðurskurðar eru þátttakendur einungis sautján að þessu sinni, en voru þrjátíu og einn fyrir tveimur árum. Mér finnst þessi sýning eiginlega betri en sú síðasta því verkin fá gott rými og mjög stór verk njóta sín vel,“ segir Hlynur.

Víð skilgreining

Sýningin takmarkast við norðlenska listamenn en skilgreiningin á „norðlenskum listamanni“ er þó mjög víð, eins og Hlynur bendir á: „Listamennirnir búa ekki allir á Norðurlandi en eru fæddir þar eða hafa starfað þar. Ég segi bara, ef þú lítur á þig sem norðlenskan listamann þá geturðu sótt um að vera þátttakandi í sýningunni.“

Verk eftir Hrefnu Harðardóttur og Sigurð Mar Halldórsson.

Í fyrsta sinn er sérstakt þema á samsýningu norðlenskra listamanna í safninu, en titill sýningarinnar er Takmarkanir. „Listamönnunum er í sjálfsvald sett hvernig þeir túlka þann titil og það sést að sumir þeirra hafa ekki verið að hugsa sérstaklega um takmarkanir, en svo má velta því fyrir sér hvað séu takmarkanir og í hverju þær felast,“ segir Hlynur.

Elsti listamaðurinn sem á verk á sýningunni er Guðmundur Ármann Sigurjónsson, fæddur 1944. Yngsti listamaðurinn er Brák Jónsdóttir, fædd 1996, en hún er nýútskrifuð úr Listaháskólanum. Faðir hennar, Jón Laxdal Halldórsson, og móðir, Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, eiga einnig verk á sýningunni. Safnið gefur út sýningarskrá með ljósmyndum og texta um öll verkin.

Iðnir ferðamenn

Sýningin er á tveimur hæðum og verkin eru afar fjölbreytt. Þarna eru málverk, ljósmyndir, vídeóverk, teikningar, skúlptúrar, lágmyndir og innsetning. „Við setjum ekki skilyrði um að verkin þurfi að vera ný, en 90 prósent verkanna eru mjög nýleg,“ segir Hlynur.

Hann segir erlenda ferðamenn iðna við að heimsækja safnið á sumrin. „Þeir hafa verið um 70 prósent gesta. Þeir koma hingað og segjast vera búnir að sjá Picasso og Andy Warhol og vilja sjá verk íslenskra listamanna. Þá getum við bent þeim á þessa sýningu með mikilli ánægju.“

Sýningin stendur til 26. september.