Mosfellsbakarí er nú í fyrsta sinn frá stofnun að bjóða upp á vegan bollur.

„Við ákváðum að bæta við flóruna. Þetta er í fyrsta skipti sem við gerum þetta. Við erum líka að kanna mismunandi vegan rjóma og teljum að þetta verði bara betra með tímanum,“ segir Hafliði Ragnarsson, framkvæmdastjóri Mosfellsbakarís.

„Þær eru eins og gömlu góðu bollurnar en engin egg að sjálfsögðu. Þetta er mjög mjúkt og gott deig. Við notum allt vegan, eins og til dæmis smjörlíki í staðinn fyrir smjör.“

Gómsæt vegan bolla með einum rjúkandi kaffibolla.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson
Nammi namm!
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Brauð & Co bjóða einnig upp á vegan rjómabollur og hafa gert það frá upphafi.

„Viðbrögðin er jákvæð. Fólk er auðvitað þakklátt að hafa þennan valkost,“ segir Sigurður Máni Helguson hjá Brauði & Co í samtali við Fréttablaðið.

„Við notum hafrarjóma; fyrsti almennilegi vegan rjóminn sem hægt er að þeyta og heldur sér meira að segja betur en venjulegur rjómi.“

Sigurður Máni segir að uppskriftin að hinni vinsælu vegan bollu sé hernaðarleyndarmál. Hins vegar getur hann bent viðskiptavinum á að hinn fullkomni vegan rjómi fyrir bollurnar, sem er hafra þeytirjómi frá AITO, fáist í Bónus.

Brauð & Co. hefur boðið upp á vegan bollur á bolludag frá stofnun.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þórunn S. Bjarnadóttir og Harpa Halldórsdóttir, tengdasystur búsettar í Danmörku, halda úti matarblogginu Dass af salti, þar sem þær elda og baka alls kyns dýrindis rétti með innihaldsefni úr plönturíkinu.

„Okkur hefur lengi dreymt um að opna síðu þar sem við getum deilt með öðrum vegan uppskriftum sem hafa reynst okkur vel. Það kemur eflaust mörgum á óvart hversu einfalt er að matreiða vegan og hvernig hægt er að gera vegan útfærslu á nánast hvaða uppskrift sem er. Við teljum það vera í allra hag að prófa vegan uppskriftir þar sem vegan matur er ekki aðeins bragðgóður, heldur er hann einnig betri fyrir dýrin og umhverfið,“ segir Þórunn í samtali við Fréttablaðið.

Þær tóku forskot á sæluna og bökuðu nokkrar gerðir af bollum um helgina. Þær fundu upp á spennandi uppskrift að smjördeigsbollum með oreorjóma, súkkulaðisírópi og jarðarberjasultu. Allt vegan að sjálfsögðu! Þær gefa Fréttablaðinu leyfi til að deila uppskriftinni.

Oreo bollur

Nú er um að gera að prófa uppskrift Þórunnar og Hörpu fyrir bolludaginn.
Mynd/Dass af salti

Bollur (6 stk.):

Keypt smjördeig (vegan)

Við keyptum smjördeigsrúllu þ.e. smjördeig sem er útflatt. Ef notast er við slíkt smjördeig þá er byrjað á því að brjóta það í tvennt þannig að það sé tvöfalt. Síðan er það skorið niður í 6 kassa (eða mótaðir hringir). Ef notast er við smjördeigsplötur þá eru þær þykkri og því ekki þörf á því að hafa tvöfalt lag. Deigið er bakað skv. leiðbeiningum á pakka.

Oreo rjómi:

1 ½ dl þeytanlegur plönturjómi (t.d. Alpro eða Aito)

6 muldar Oreo kexkökur

Byrjað er á því að stífþeyta rjómann. Muldu Oreo er síðan blandað varlega saman við. Gott er að kæla rjómann áður en hann fer í bollurnar.

Súkkulaðisíróp:

100 g suðusúkkulaði

2 msk síróp

30 g plöntusmjör

Öll innihaldsefnin eru blönduð saman og hituð við meðalhita. Leyfið sírópinu að kólna örlítið áður en það fer á bollurnar.

Við notuðum jarðarberjasultu frá Den Gamle Fabrik í bollurnar okkar.