Lista­safn Ís­lands er opið og þar er vand­lega gætt að sótt­vörnum. List­þræðir er yfir­skrift sýningar sem nú stendur yfir. Þar eru til sýnis verk sem flokkast til vefnaðar og þráð­listar. Sýningar­stjórar eru Dag­ný Heið­dal og Harpa Þórs­dóttir.

„Við Harpa byrjuðum á því að skoða textíl­verk í safn­eign Lista­safns Ís­lands og eftir það könnuðum við hvaða lista­menn hafa verið að vinna með þráðinn í skúlptúr og öðrum verkum, sem venju­lega eru ekki flokkuð sem textíl­verk. Við fórum að hugsa meira um þráðinn, það sem er saumað, heklað, ofið, hnýtt og þæft,“ segir Dag­ný. „Við fundum mikið af efni í safn­eigninni og öðrum söfnum og skoðuðum bækur og aðrar heimildir. Á endanum var þetta orðið ó­trú­lega mikið magn af verkum þannig að það var þrautinni þyngra að velja verk á sýninguna. Hátt í 300 verk komu til greina og um 60, eftir 37 lista­menn, voru valin á þessa sýningu.“

„Með sýningunni erum við að draga fram fjöl­breytnina í þráð­list. Verkin eru bæði unnin á hefð­bundinn hátt og í frjálsari og opnari miðla. Nefna má Hildi Bjarna­dóttur sem ögrar kvenna­listinni og hand­verkinu með því að hekla verk sem eru á­deilu­verk en um leið hug­ljúf, segir Harpa.

Verk eftir 37 listamenn eru á sýningunni í Listasafni Íslands.

Í ár er aldar­af­mæli Ás­gerðar Búa­dóttur sem var frum­kvöðull í textíllist hér á landi. Fimm verk eftir hana eru á sýningunni. „Aldar­af­mæli hennar gaf til­efni til að horfa sér­stak­lega til vefnaðar og þráð­listar. Ás­gerður var viður­kennd sem ab­strakt mynd­listar­maður. Það má segja að kvenna­bar­áttan og bar­áttan fyrir því að textíllist yrði viður­kennd sem mynd­list, hafi haldist í hendur. Þegar ég spurði konur sem eiga verk á þessari sýningu hvort Ás­gerður hefði verið þeim fyrir­mynd sögðu þær að það hefði skipt máli fyrir þær að Ás­gerður leit alltaf á sig sem mynd­listar­mann,“ segir Dag­ný.

Dag­ný segir að sýningin sýni að á­kveðin þemu séu lista­mönnunum hug­leikin. „Þar er náttúran á­berandi, einnig sam­band manns og náttúru og svo auð­vitað maðurinn sjálfur. Kvenna­bar­áttan endur­speglast sömu­leiðis í mörgum verkanna, og þar má sem dæmi nefna verk Hildar Hákonar­dóttur og Sig­rúnar Sverris­dóttur.“

„Með þessari sýningu er ekki verið að sýna línu­lega þróun textíl­sögu,“ segir Harpa. „Við erum að sýna fjöl­breytnina og gróskuna og undir­strika hversu margir ungir lista­menn vinna með þráð. Það er tímanna tákn að textíllistin krefst gríðar­legrar færni og er tíma­frek.“