Þeir segja að það sé krefjandi að elda mat í hádeginu fyrir sama fólkið í 240 daga á ári. Sama spurning dynur á þeim og hjá foreldrum: „Hvað er í matinn í dag?“ Þeir segjast þó reyna að halda í fjölbreytnina og gera matseðla eina til tvær vikur fram í tímann. „Við pössum vel upp á að hafa að minnsta kosti níu vikur á milli þess að elda sama réttinn. Starfið er skemmtilegt og það eru forréttindi að vinna við áhugamálið,“ segja þeir.

Kjartan og Einar eru sammála um að bylting hafi orðið á undanförnum árum í tækjum fyrir atvinnueldhús. „Þetta hefur verið hröð þróun, þá sérstaklega þegar kemur að ofnum og pönnum. Við fengum pönnu á síðasta ári sem nefnist Rational vario cooking center en hún er mjög fjölhæf, það er hægt að nota hana sem pönnu, pastapott, djúpsteikingarpott og sous vide-tæki svo eitthvað sé nefnt. Það sparar líka pláss að hafa alla þessa möguleika í sama tækinu svo ekki sé talað um hve miklu sparneytnari á rafmagn þessi tæki eru orðin í dag.

Góðan ofn er að okkar mati nauðsynlegt að hafa í öllum eldhúsum, það eru til nokkrar góðar tegundir á markaðnum en við notumst við Rational-ofna en þeir hafa verið mjög vinsælir hér á landi síðustu árin.“

Hvað tæki fyrir utan þessi stóru er nauðsynlegt að hafa í atvinnueldhúsi?

„Í flestum eldhúsum er mikið af litlum tækjum, en góðan töfrasprota og góðan blandara er bráðnauðsynlegt að hafa.“

Hefur starf matreiðslumanna orðið léttara með aukinni tækni?

„Auðvitað hjálpar tæknin okkur eins og öllum öðrum. Við myndum þó ekki segja að starfið væri léttara núna en það var fyrir 10 eða 20 árum, þar sem kúnnarnir gera allt aðrar kröfur í dag en þeir gerðu. En vissulega flýtir tæknin fyrir undirbúningi í eldhúsinu og hjálpar okkur að auka fjölbreytnina,“ segja þeir.

Þeir eru sammála um að Covid-samkomutakmarkanir hafi gjörbreytt starfi þeirra. „Flestir starfsmenn fóru að vinna heima og fjöldinn fór alveg niður í fimm í mat á tímabili og allt hólfaskipt. Við unnum þá á tvískiptum vöktum og vorum ekki saman í vinnu,“ útskýrir Kjartan. „Þetta voru skrítnir tímar.“

Þeir félagar baka allt brauð á staðnum og það er sannarlega ekki hægt að kvarta yfir matseðlinum hjá þeim í Landsneti. Hver myndi ekki vilja svona mat í hádeginu?

Í gær var þetta í matinn:

Grænmetisseyði og nýbakað súrdeigsbrauð.

Steikt rauðspretta með heimagerðu remúlaði og volgu kartöflusalati.

Vegan blómkálsbuff með grilluðu og sýrðu blómkáli og chilli.

Glæsilegur salatbar.

Á fimmtudögum eru yfirleitt sparidagar. Næsta fimmtudag verður til dæmis boðið upp á:

Tómatsúpu með parmesan-kexi og nýbökuðu focaccia.

Fylltar kjúklingabringur með parmesankartöflum og rúkólapestó.

Vegan Wellington með villisveppasósu.

Glæsilegur salatbar.