Meghan Markle og Harry bretaprins var hvergi að finna á afmælisfögnuði Kate Middleton um helgina og vakti það athygli blaðamanna breskra götublaða sem veltu því margir hverjir fyrir sér hvort að þeim hefði hreinlega verið boðið í herlegheitin sem fóru fram um helgina nýliðnu. 

Síðustu tvo mánuði hafa bresku götublöðin verið dugleg að fjalla um meintar erjur á milli Meghan og Kate og var til að mynda fullyrt í byrjun desember að Meghan hefði tekist að græta Kate í aðdraganda brúðkaups síns en konungsfjölskyldan hefur þvertekið fyrir allar slíkar fréttir og þá hefur blaðamaður CNN furðað sig á breskri umfjöllun um Meghan.

Sjá einnig: Skilur ekkert í umfjöllun breskra miðla um Meghan

Þannig hafa breskir miðlar líkt og Daily Mail haldið því fram fullum fetum að Meghan og Harry hafi hreinlega ekki verið boðið á meðan miðlar líkt og E News segja að líklegast sé að þau séu nú stödd í ferðalagi. Þá hefur vinur fjölskyldunnar gert lítið úr teitinu og sagt að um minnisháttar viðburð hafi verið að ræða.

Ekki er lengra síðan en í gær að fréttir bárust af því að hertogaynjan vinsæla eigi von á sér í lok apríl eða byrjun maí en vangaveltur hafa verið uppi um hvort að parið eigi jafnvel von á tvíburum en ekkert hefur fengist staðfest. Breska konungsfjölskyldan hefur neitað að tjá sig um málið.