Fjarvera Kate Middleton frá minningarathöfn um Díönu var „veigamikil á marga vegu“ samkvæmt heimildarmanni innan bresku konungsfjölskyldunnar. Heimildarmaðurinn ræddi málin við PageSix og sagði ljóst að það hafi ekki verið fjöldatakmarkanir sem komu í veg fyrir að Kate hefði mætt.

Bræðurnir William og Harry komu saman til að af­hjúpa styttu af móður sinni, Díönu prinsessu, síðastliðinn fimmtudag í Kensington höll í London. Prinsessan hefði orðið sextug þann 1. júlí ef hún hefði ekki látist í skelfilegu slysi.

Sam­band bræðranna hefur verið mikið í um­ræðunni undan­farna mánuði eftir að Harry mætti í við­tal hjá Opruh á­samt eigin­konu sinni Meghan Markle í mars síðast­liðnum og lýsti deilum þeirra við konungs­fjöl­skylduna sem leiddu til þess að hjónin sögðu sig frá konung­legum skyldum sínum.

Búist var við því að Kate myndi vera á staðnum til að halda friðinn milli bræðranna en hertogynjan lét ekki sjá sig.

Fullkomin afsökun

Vegna sótt­varna var at­höfnin lítil í sniðum og var fjöldi gesta tak­markaður við 15 manns. „Ég held að fjöldatakmarkanir hafi verið fullkomin afsökun fyrir Kate til að halda sig fjarri,“ sagði heimildarmaðurinn. „William er kominn með nóg af dramanu og það þarf ekki að draga Kate inn í þetta líka.“

Heimildarmaðurinn sagði Hertogahjónin vera að skipuleggja fjölskylduheimsókn til Bandaríkjanna til að hitta Harry og Meghan í einrúmi. „Það er mun mikilvægara en opinber orðræða.“