Heimsendingarþjónusta hefur stóraukist á COVID-tímum. Vegna hræðslu fólks um að smit berist með vörunum hafa stærstu vöruhúsin verið að breyta verkferlum sínum. Stærsta áskorunin er að mannshöndin komi ekki nálægt pökkunum. Það er tæknifyrirtækið Phantom Auto sem hefur skapað framúrstefnulega lausn. Hún er fólgin í því að fjarstýringarbúnaður sem stjórnað er inni á skrifstofu getur ekið lyftaranum um allt vöruplássið og stýrt hreyfingum hans. Sá sem stýrir getur unnið fjarri vöruhúsinu og hægt er að fækka starfsfólki mikið sem er á staðnum. Lyftarinn ekur vörunum beint inn í flutningavagn sem fer með vöruna á pósthús.

„Við höfum verið að afgreiða þessi tæki til fjölda viðskiptavina okkar í Bandaríkjunum og í Evrópu,“ segir Elliot Katz, annar stofnanda Phanton Auto, í frétt sem birtist á bbc.com. „Mikil eftirspurn er eftir þessum búnaði og margir viðskiptavinir okkar hafa áhuga á þessu kerfi,“ bætir hann við.

Ökumaður á skrifstofu

Líklega halda margir að einhver standi með fjarstýringu í hendi og stýri lyfturunum. Þannig er þetta ekki. Starfsmaður situr inni á skrifstofu með sérútbúna fjarstýringu og fjölda skjáa þar sem hann getur séð allt umhverfið þar sem lyftarinn er og séð þegar hann keyrir um vörulagerinn. Sá sem stýrir fjarstýringunni heyrir sömuleiðis öll umhverfishljóð þar sem lyftarinn ekur. Í rauninni er starfsmaðurinn eins og ökumaður með stýri og pedala í gólfi. Ökumaðurinn getur alltaf séð ef eitthvað fer úrskeiðis. Ef einhver gengur í veg fyrir lyftarann stöðvar ökumaðurinn tækið.

Margir starfsmenn geta setið í sama rými og stýrt mismunandi tækjum.

Mikið hefur verið rætt um sjálfkeyrandi bíla. Fjarstýrðir bílar eru á margan hátt hagkvæmari því þeir hafa í raun „ökumann“. Þannig hefur þessi tækni verið að þróast í önnur akandi tæki.

Sjálfkeyrandi vöruflutningar

Meðal þeirra fyrirtækja sem starfa í fjarskiptabúnaði er bandaríska sprotafyrirtækið Teleo. Það hefur verið að sérhæfa sig og þróa lausnir á tækjum fyrir byggingariðnaðinn. Fyrirtækið er að byrja prófun hjá einum viðskiptavini en það er fjarstýrt tæki á hjólum sem getur flutt búnað á milli staða. Í framtíðinni munu starfsmenn sitja inni á skrifstofum og fjarstýra ýmsum farartækjum í nálægum byggingaframkvæmdum. Teleo trúir því að þetta muni auka öryggi á vinnusvæðinu. Vinay Shet, framkvæmdastjóri Teleo, segir að erfitt sé að anna eftirspurn eftir meiraprófsbílstjórum um þessar mundir. „Með því að breyta starfi þessara ökumanna í skrifstofustarf fáum við breiðari hóp fólks í vinnu.“

Vörubíll sem er sjálfkeyrður og gegnir margvíslegu hlutverki.

Gæti gagnast hernum

Mögulega verða einnig leigubílar og fólksflutningabílar fjarstýrðir frá skrifstofum í framtíðinni. Eina raunverulega hættan, segja framleiðendur, er að hryðjuverkamenn brjótist inn í hugbúnaðinn og taki stjórnina yfir. Allt hefur því verið gert til að dulkóða fjarskiptin og loka sjálfkrafa búnaði ökutækjanna ef starfsmaður missir aðgang að þeim. „Enginn getur ábyrgst að aldrei verði brotist inn í svona kerfi,“ segir Christian Facchi, háskólaprófessor í hagnýtum vísindum. Hann telur að opinber yfirvöld ættu að setja strangar reglur um öryggi fjarstýrðra ökutækja. Á hinn bóginn telur hann að fjarstýrðir bílar geti reynst mun gagnlegri en sjálfkeyrandi.

Bandaríkjaher hefur sýnt mikinn áhuga á þessu verkefni. Rannsóknarstofa hersins hefur verið að þróa fjarstýrð könnunarvélmenni á hjólum sem gætu nýst í hernaði. Slík tæki gætu farið yfir erfið landsvæði, jafnvel kannað byggingar og náð í gögn og upplýsingar.

Þessi kemur heim til þín með heitan mat beint frá því veitingahúsi sem þú velur að skipta við. Sjálfkeyrandi heimsending.

Heimsending á hjólum

Á vef tímaritsins Forbes, forbes.‌com, er fjallað um fjarstýrðan lítinn vörubíl frá Phantom Auto. Slík tæki yrðu notuð til að sækja varning á vörulager og flytja til dæmis í skip. Bíllinn er sjálfvirkur og mannshöndin kæmi hvergi nærri. Þannig verður allur akstur leystur með skynjurum og gervigreind en „ökumaðurinn“ situr á skrifstofu með fjarskiptabúnað sem hjálpar til við starfið ef á þarf að halda. Phanton Auto tæknin felur í sér að sá sem stýrir búnaðinum getur þess vegna verið í þúsunda kílómetra fjarlægð. Bílarnir eru mannlausir en Phantom Auto gerir ráð fyrir að fjarstýringarbúnaðurinn geri alla vinnu nákvæmari og hentugri. Þannig hefur fyrirtækið framleitt sjálfkeyrandi vagn sem flytur mat í heimsendingarþjónustu upp að dyrum. Vagnarnir hafa þegar verið teknir í notkun í Kaliforníu.