Sýningin Fjársjóður þjóðar stendur nú yfir í Listasafni Íslands með úrvali verka úr safneigninni. Reglulega er skipt um verk á þessari sýningu og nú getur að líta í stóra sal safnsins mörg lykilverk íslenskrar listasögu á fyrri hluta 20. aldar og fram yfir hana miðja.

„Í þessum sal erum við að varpa ljósi á upphaf íslenskrar myndlistar og sýna hvaða efnistök voru ráðandi hjá málurum á fyrri hluta 20. aldar,“ segir Harpa Þórsdóttir safnstjóri. „Frá byrjun aldarinnar sýnum við verk eftir Þórarin B. Þorláksson, Ásgrím Jónsson, Jóhannes Kjarval,. Jón Stefánsson, Kristínu Jónsdóttir og Júlíönu Sveinsdóttur.

Einstakt vatnslitatímabil

Þar á meðal verka eru vatnslitamyndir eftir Ásgrím Jónsson. „Þær eru mikið dýrmæti, algjörlega einstök verk í íslenskri listasögu. Ásgrímur málaði vatnslitaverkin á fremur stuttu tímabili og þær eru vitnisburður um þau meistaratök sem hann bjó yfir í vatnslitanotkun. Svo hætti hann að mála með þessum hætti, fann að hann var farinn að endurtaka sig og var mjög gagnrýninn á það hjá sjálfum sér. Vatnslitatímabil hans er einstakt og þessi verk eru aðeins sýnd af og til,“ segir Harpa.

Á sýningunni eru náttúrumyndir eftir Kjarval, þar sem vottar fyrir andliti, stillt upp í nálægð við abstrakt mynd eftir Kristján Davíðsson. „Það er ríkt í okkur að tala um náttúruna eins og hún sé mennsk og í henni búi aðrar vættir. Í náttúrumyndum sínum endurspeglar Kjarval þá trú,“ segir Harpa. „Það er gaman að setja kraftmikla expressjóníska mynd eftir Kristján Davíðsson við hliðina á Kjarvalsmálverki og leyfa myndunum að tala saman og leyfa þessum fantasíumyndum Kjarvals að tengjast abstraktverkunum sem taka við af eldri verkunum í salnum.“

Brautryðjandinn Svavar

Myndir eftir Svavar Guðnason eru vitanlega á sýningunni. „Það er ekki hægt að sýna abstrakt á Íslandi, í svona listsögulega knappri samantekt eins og hér í salnum, nema að benda á hversu mikill brautryðjandi Svavar var í abstraktinu“ segir Harpa. Raunsæið kemur einnig við sögu á sýningunni. „Raunsæið kemur seint fram á 20. öldinni og þar eigum við listamenn eins og Gunnlaug Scheving og Jón Engilberts, sem gerðu kraftmikil verk með ólíkum hætti og við leyfum þeim að loka þessum litla fjársjóðshring.“

Gestum býðst að fá fjársjóðskort sem er skemmtilegur leiðarvísir um sýninguna. Þess skal getið að talið er inn á safnið. Harpa segir að aðsóknin hafi verið góð undanfarið miðað við aðstæður í þjóðfélaginu. „Það er samdráttur en fólk er að koma, sem er ánægjulegt,“ segir hún.

Meisturum tveim, Jóhannesi Kjarval og Kristjáni Davíðssyni, er stillt saman á sýningunni.
Myndir eftir brautryðjanda í abstraktinu, Svavar Guðnason, prýða veggi og litadýrðin er við völd.