Sirrý Arnardóttir hefur á undanförnum árum sent frá sér þrjár bækur um Tröllastrákinn. Saga var vinkona Tröllastráksins og bjó á Snæfellsnesi í fyrri barnabókunum.

Spurð um söguþráð bókarinnar segir Sirrý: „Saga er flutt með mömmu sinni og afa til borgarinnar, nánar tiltekið í fjölbýlishús í Grafarvogi rétt við sjóinn. Hún þekkir enga krakka í hverfinu og veit ekki alveg hvernig hún á að eignast vini. Sjónvarpsgláp á hug hennar allan, en fyrir hvatningu afa síns finnur hún leiðir til að uppgötva sína eigin hæfileika og eignast vini.

Í blokkinni búa þrír strákar sem hún þekkir ekki í sundur, þeir eru allir eins, enda þríburar. Þau fara í fjöruferð að tína rusl og safna flöskum og dósum. Þar finna þau fjársjóðskistu sem á einhvern dularfullan hátt er ætluð þeim. Kistan er uppfull af gersemum sem þau geta notað á hverfishátíð síðar um daginn. Þar verður síðan líf og fjör.“

Hvatning frá leikskólakennurum

Er boðskapur í bókinni?

„Bókin er nú fyrst og fremst hugsuð sem fyndin og skemmtileg saga. En ef betur er að gáð leiðir hún hugann að því hvað er í raun og veru helsti fjársjóðurinn í lífinu. Og þetta er bók um hvernig hægt er að finna hæfileika sína, eignast vini, vera gerandi í lífinu og lifa í skemmtilegu hverfi í samfélagi við aðra,“ segir Sirrý og bætir við:

„Og mál málanna kemur líka mikið við sögu sem er auðvitað umhverfisvernd. Nútímabörn eru mjög meðvituð og áhugasöm um umhverfisvernd. Svo er markmið mitt að textinn auðgi orðaforða barna og hvetji þau til að leika sér með tungumálið. Til dæmis er mamma Sögu listakona og svo hefur hún einnig þann vana að skrifa niður lista um flest sem hún tekur sér fyrir hendur.“

Sirrý segist hafa verið hvött til að skrifa bókina. „Eftir að hafa skrifað þrjár barnabækur um Trölla­strákinn ætlaði ég að einbeita mér að bókum fyrir fullorðna en var hvött af leikskólakennurum til að skrifa fleiri barnabækur, því það sé þörf fyrir bækur sem höfði til barna á aldrinum fjögurra til tíu ára sem auki orðaforða og séu auk þess skemmtilegar. Ég er þessum leikskólakennurum afar þakklát fyrir hvatninguna.“

Mikil listakona

Um samvinnu sína og Freydísar Kristjánsdóttur sem gerir myndirnar segir Sirrý: „Freydís er mikil listakona og samstarfið hefur verið einstaklega gefandi. Mér finnst næstum eins og hún hafi farið inn í hausinn á mér, myndirnar eru alveg í þeim anda sem ég hugsaði söguna. Ég sagði henni hvar ég sæi sögusviðið fyrir mér, hún fór þangað í vettvangsferð og útkoman er frábær.

Börn vilja líka gjarnan hafa húmor í myndum og þau eru nákvæmir og kröfuharðir lesendur. Þegar textinn segir frá tuttugu sleikibrjóstsykrum þá þarf líka að teikna nákvæmlega tuttugu stykki.Freydís er líka mjög góð í að teikna íslenska náttúru og í Reykjavík erum við svo lánsöm að hafa náttúruna allt í kringum okkur. Þetta er því bæði saga um blokkarlíf og hreina náttúru.“