Mynd ljósmyndarans Helgu Laufeyjar Ásgeirsdóttur af söngvaranum Unnsteini Manuel og syni hans Víkingi var fjarlægð af samfélagsmiðlinum Instagram á dögunum. Er það vegna þess að barnið er bert að ofan á myndinni. Þetta tilkynnir Helga í færslu og ljóst að hún er gáttuð á málinu.
Í færslunni sinni birtir Helga myndina af feðgunum að nýju en hefur fyrir því að setja tvö X til þess að hylja geirvörtur barnsins vegna skilmála miðilsins. Helga býr í Berlín og er góðvinkona Unnsteins og Ágústu Sveinsdóttur sem eiga saman litla Víking.
„OK ÉG ER Í SJOKKI! instagram tók út póstinn minn VEGNA ÞESS AÐ VÍKINGUR ER BER AÐ OFAN !!“ skrifar Helga og lætur fylgja með röð broskalla til að láta í ljós furðu sína.
Þá lætur hún jafnframt myllumerkið #freethenipple fylgja með en samfélagsmiðillinn hefur löngum verið gagnrýndur fyrir skilmála sína sem snúa að geirvörtum og nekt. Birtir Helga jafnframt skjáskot af tilkynningu miðilsins til hennar. Þar kemur fram að hún hafi verið talin brjóta gegn skilmálum miðilsins.