„Það er hægt að fjárfesta á marga vegu. Geyma fé í banka, á markaði, í fasteignum, í málverkum, gulli, verðmætum hlutum, í rafmyntum, undir koddanum – eða í sjálfri sér. Tíminn er peningar hefur heyrst og því mikilvægt að hafa í huga þegar festa á fé í konum að það þarf rými til. Hvað er það fyrsta sem þarf að hafa í huga þegar fjárfestingu í sjálfri sér skal fremja?“ spyr Sigríður.

„Hvar skal byrja? Það liggur ekki alltaf fyrir. Hvert stefnir þú? Óljóst. Hver er tilgangur þinn? Hvað ertu eiginlega að meina? Konum er einkar lagið að taka að sér fjölda hlutverka og tæma þannig mikilvægustu auðlind okkar allra, tímann. Stutt í að kroppa í næstu verðmæti, heilsuna. Með auknu sjálfræði í vinnuhegðun skiptir máli sjálfsþekking. Það er ákveðinn lykill að heilbrigðu atvinnulífi og að sjálfsögðu grunnur að eigin lífsgæðum.

Fjárfestum í konum, sýnum samstöðu og iðkum jafnrétti, fjölbreytni og inngildingu samfélaginu til gæfu og giftusemi

Fjölbreyttur hópur kvenna

Yfirskrift opnunarviðburðar starfsárs FKA 2022-23 var „Fjárfestu í þér til framtíðar“. Konur voru hvattar til að setja sig á dagskrá, hjá sjálfum sér, búa til rými og finna og sinna eigin fjárfestingu í gegnum FKA. Það þýðir að kona þurfti að ákveða að taka að sér nýtt ólaunað hlutverk, aðra vakt – sjálfa sig.

Hvað mætir konu þegar hún gengur í FKA? Fjölbreyttur sívaxandi hópur 1.350 félagskvenna í gróskumiklu félagsstarfi. Framúrskarandi leiðtogakonur, atvinnurekendur og launþegar úr flestöllum starfsgreinum landsins, kraftmikil framtíðarmön, landsbyggðadeildir landshorna á milli, öll póstnúmer höfuðborgarsvæðisins, konur af erlendum uppruna frá nálægt fjörutíu mismunandi löndum, breytt aldursbil – félagskonur spanna sex áratugi, bros og björt augu, því konur standa í opinni skeifu til að taka á móti henni en ekki lokuðum hring sem snýr við henni baki, hugmyndaauðgi, nýsköpun, fræðsluerindi, viðskiptatækifæri, ómetanlegt tengslanet, spriklandi hreyfigleði og súrefnisát, sem birtist meðal annars í golfi, gönguferðum, sjósundi, hlaupahópi, fjallageitum, – Raun & raf-viðburðir, ólínuleg dagskrá sem auðveldar félagskonum aðgengi umtalsvert.

Að vera með og tilheyra, sama hvar við erum staddar og hvenær. Að framkvæma marga hluti á sama tíma er sértæk lúmsk hæfni sem er ekki alltaf jákvæð. FKA kennir okkur fljótt að forgangsraða, því gróska í viðburðum félagsins er slík að félagskonur langar til að mæta og við byrjum að Tetrisa vaktir hversdagsins til að koma fjárfestingunni okkar að. FKA hvetur konur til að mæta á viðburði félagsins, vera virkar, fara út fyrir þægindahringinn, efla og æfa tengslanetið, stunda sýnileikann og vera annað hvort sitt eigið hreyfiafl eða hluti af okkur sem hóp – öflugum hóp sem hefur það einbeitta yfirlýsta markmið að efla, styrkja og hvetja konur í atvinnulífinu.

Allar einstakar

Það er hluti af fjárfestingunni að mæta. Við lærum mest og best með því að framkvæma sjálfar og/eða sjá og heyra vegferðir annarra. Sögur okkar skipta svo miklu máli. Þar endurspeglast reynslan, áföllin, velgengnin, viðkvæmnin, höfnunin, bugunin, styrkurinn, úrvinnslan, gleðin, vonin, upprisan. Við erum allar: einstakar, dýrmætar og fágætar. Félagskonur tilheyra, fá rými og sjást. Hér þarf engin að þykjast – það er aðeins eitt stykki „ég“ – allar aðrar konur eru uppteknar.

Það er aftur á móti ekki nóg að mæta. Ekki frekar en í öðrum breytingum næst árangur með hugsun og ákvörðun einni. Það er eins og að mæta í bankann, standa hjá gjaldkeraborðinu og bíða. Fjármagnið ávaxtast takmarkað í veskinu þar. Það þarf að framkvæma til að ávöxtun hefjist. Þá réttir FKA fram veiðistöng. Sú fær sem frýjar. FKA kennir félagskonum hvort tveggja. Að læra með því að gera, á þínum eigin forsendum. Uppskeran er í samræmi við iðkun. Síðan eru það konur sem vita nákvæmlega hvernig þær vilja hafa hlutina, hvað þær vilja gefa félaginu af sínum tíma og rými. Stundum minna en meira, en vilja þó tilheyra þessu einstaka samfélagi. Þannig er FKA lífið. Á okkar eigin forsendum – allt eins og það á að vera.

Samstaða kvenna

Að fjárfesta í konum – með raunverulegu fjármagni, ekki aðeins með valdeflingu – hefur margfeldisáhrif á samfélagið. Konur eru helmingur íbúa, atvinnulífs, handa og heilabúa á flestum stöðum. Samstaða með konum er hraðall á sjálfbærnivegferðinni. Það er engin sjálfbærni án kvenna. Það er því ágætt að rýna í hvar við veljum að ávaxta fé okkar. Fjárfestum í konum, í nýsköpun kvenna, störfum þeirra og framgangi í samfélaginu, fyrirtækjum, stofnunum og þjónustu – því að baki flestra kvenna eru fjölskyldur og ótal tilheyrandi hlutverk.

Veiðistöng fyrir raunverulegar fjárfestingar í konum:

Peningar tala. Verslaðu við konur sem reka eigin fyrirtæki, ekki síst einyrkja.

Styddu konur til sköpunar, við þurfum hvatningu alveg frá fyrstu skrefum og jafnvel fyrr. Að fá byr undir vængi eflir hugrekki, kjark og þor.

Fjárfestu sem engill, í hópfjármögnun, vísissjóðum sem styðja konur – æfðu þig hreinlega í að ávaxta þitt eigið fé og komdu því í hendur kvenna.

Talaðu konur upp og áfram – ávallt. Ófrávíkjanlega. Við þurfum ekki að vera sammála til að vera samhuga.

Heilbrigt atvinnulíf er hvetjandi, með góð samskipti, virðir tímann og heilsu sem verðmæti, greiðir götu fólks, þolir og þráir mistökin því þar leynist lærdómurinn og er sjálfleiðréttandi því við finnum í hjörtum okkar hvað virkar vel – okkur líður svo vel.

Um leið og ég óska félagskonum og landsmönnum öllum innilega til hamingju með daginn beini ég athygli að þeim konum sem við heiðrum á FKA viðurkenningahátíð í dag. Þær fjárfestu í sér og sinni vegferð og eru að uppskera. Við samgleðjumst og þökkum fyrir lærdóminn sem þær færa okkur.

Fjárfestum í konum, sýnum samstöðu og iðkum jafnrétti, fjölbreytni og inngildingu samfélaginu til gæfu og giftusemi. Þá fyrst brýst út gróska sem vellandi heitur hver … og okkur líður svo vel,“ segir Sigríður Hrund.