Allt og sumt er titillinn á nýrri vísnabók eftir Þórarin Eldjárn. Flest verður þessu þekkta og vinsæla skáldi þar að yrkisefni.

„Þetta er vísna­kver, það þriðja frá minni hendi. Vísna­fýsn kom hjá For­laginu 2010, síðan Til í að vera til 2019 og nú Allt og sumt,“ segir Þórarinn. „Þetta eru stökur, yfir­leitt stakir kvið­lingar, en stundum er að­eins aukið í. Vísurnar eru undir ýmsum bragar­háttum, fyrst og fremst fer­kvæðum ís­lenskum háttum í ýmsum af­brigðum. Svo er eitt­hvað um limrur.“

Stuttar hug­myndir

Yrkis­efnin eru marg­vís­leg. „Eins og segir í síðustu vísu bókarinnar er fjallað um allt en þó mest um sumt. Einn þráður gæti flokkast undir spak­mæli eða al­menna visku sem ég hef reynt að sjóða niður í knappt form og að­kreppt. Þurfti stundum brag­fræði­legt skó­horn. Heil­ræða­vísum bregður fyrir og ýmsum stemningum. Mest­allt er í spaug­sömum tón en þó ekki ætlast til að fólk skelli upp úr á hverri einustu síðu. Hátt­bundna formið felur oft í sér að klykkt er út með ein­hverju ó­væntu sem samt hefur verið undir­búið til hálfs með ríminu.“

Þórarinn segist grípa í það jafnt og þétt að yrkja vísur og safna þeim síðan saman. „Þetta eru stuttar hug­myndir, hug­dettur, orða­leikir eða eitt­hvað sem kviknar út frá tungu­málinu sjálfu og rími. Sumt kemur nokkuð snöggt en annað er eitt­hvað sem ég hef krotað hjá mér og svo allt í einu rís eitt­hvað upp úr því og enn annað ratar á ýmsu formi inn í lengri ljóð og sögur.“

Mjög hressandi

Kápa bókarinnar er skemmti­leg en hana gerir Hall­dór, sonur Þórarins. Gull­bringa, sem er fjöl­skyldu­fyrir­tæki, gefur bókina út. „Gull­bringa gaf á níunda ára­tugnum út tvær bækur, Marg­sögu og Skugga­box. Svo lá út­gáfan lengi í dái en 2018 gáfum við út fjórar litlar bækur sem við kölluðum Lespúsl.

Uns að því kom núna að okkur langaði til að prófa þetta á­fram. Það er margt sem hvetur til þess. Prent­tækni og allt slíkt er orðið mun að­gengi­legra og sömu­leiðis ýmis markaðs­setning sem fram fer á netinu. Bókin fæst í búðum en við erum líka með net­sölu, gull­bringa.is þar sem auk bóka má nálgast ljóð­myndir, ljóð úr bókinni til að hengja á vegg í vönduðu prenti og fögrum ramma. Hall­dór fékk þessa hug­mynd út frá sýningu á ljóðum mínum sem haldin var á Kjarvals­stöðum í nóvember 1991. Hann var við­staddur opnunina, hálfs árs gamall og heillaðist af hönnun og upp­setningu Birgis Andrés­sonar á ljóðunum.

Það að gefa út sjálfur verður til þess að maður veit betur hvað verður um hverja ein­staka bók heldur en þegar aðrir annast út­gáfuna. Þar sem allt er í okkar höndum getum við ráðið miklu um alla kynningu. Þetta er bara mjög hressandi,“ segir Þórarinn. Búast má við fleiri verkum frá honum seinna á árinu.