Bryndís er prófessor og fagstjóri meistaranáms við myndlistadeild Listaháskóla Íslands og Mark er prófessor í myndlist við University of Cumbria í Bretlandi. Verk þeirra hafa verið sýnd víða um heim, meðal annars á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum.

„Í Gerðarsafni sýnum við listaverk sem við höfum unnið síðastliðin tuttugu ár. Í þessum verkum skoðum við samband mannsins við dýr, til að endurskoða tengsl mannsins við náttúruna eins og þau hafa verið í gegnum tíðina,“ segir Bryndís. „Ég er með bakgrunn í skúlptúr og ljósmyndun og Mark er með bakgrunn í teikningu og grafík en saman vinnum við í alls konar efni. Yfirleitt setjum við verk okkar í innsetningar sem samanstanda af skúlptúrum, fundnum hlutum, vídeóverkum, hljóði, teikningum, ljósmyndum og textum,“ segir Bryndís.

Ekki sem veggfóður

Meðal verka á sýningunni eru fjórtán myndir af sérvöldum blómafræjum sem þau fengu í grasagarðinum í Gautaborg í Svíþjóð. „Verkefnið sem var unnið í samvinnu við grasafræðing, líffræðing og tvo uppeldisfræðinga, hafði þá yfirskrift að fá fólk til að sjá plöntur sem lífverur á eigin forsendum en ekki sem eins konar veggfóður fyrir aðra hluti,“ segir Bryndís. „Fræin, sem eru af háfjallaplöntum, voru valin af garðyrkjufræðingnum Hendrik Zetter­lund sem hafði í gegnum árin safnað þeim um víða veröld og bar ábyrgð á þeim þarna í grasagarðinum. Við fengum aðgang að skimrafeindasjá til að taka svarthvítar myndir af fræjunum, sem við gáfum síðan lit í gegnum tölvuforrit samkvæmt því sem augað nam í venjulegri rafeindasmásjá. Afraksturinn er fjórtán ljósmynda verk ásamt texta af frásögnum Hendriks frá plöntusöfnuninni í upprunalegum heimkynnum plantnanna.“

Annað verk úr sama verkefni er fjórtán metra löng mynd af grasfræi. „Þetta er ákveðið gras sem kallast stipa pennata og er nær útdautt í Svíþjóð. Í dag er það varðveitt á litlu svæði innan girðingar þar sem dýrum og fólki er bannaður aðgangur en það er í raun í andstöðu við það sem það þyrfti til að taka sér bólfestu og vaxa,“ segir Bryndís.

Ljósmyndaröð hjónanna um uppstoppaða ísbirni.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Frosið líf

Árið 2001 hófu Bryndís og Mark nokkurs konar könnun á fjölda uppstoppaðra ísbjarna á Bretlandi. Þau leituðu þá uppi, ljósmynduðu eins og þeir komu fyrir og söfnuðu upplýsingum um fortíð þeirra og sögu. Á sýningunni í Gerðarsafni eru um þrjátíu ljósmyndir af uppstoppuðum ísbjörnum á söfnum og á heimilum fólks þar í landi.

Þetta mikla ísbjarnarverkefni byrjaði í tengslum við eftirnafn Bryndísar. „Ég bjó og starfaði í Glasgow í mörg ár og var svolítið þreytt á því hversu erfitt það reyndist þarlendum að bera fram Snæbjörnsdóttir. Ég tók nafnið mitt – snær og björn – með það fyrir augum að leggja grunn að eigin ísbjarnartengdu ættartré á erlendri grund. Þetta var í upphafi samstarfs okkar Mark, það sem eftir kom og þær hugsanir sem spruttu út frá þessu verkefni snertu okkur djúpt og lagði í raun grunninn að því sem við höfum í verið að velta fyrir okkur síðan í listinni. “

Um ísbjarnarverkið í Gerðarsafni segir Mark: „Þetta er ljósmyndaröð sem hófst árið 2001 og lauk árið 2006. Við rekjum sögu hvers einstaka bjarnar, sem hefst oftast þar sem hann hittir mannskepnuna og lífi hans sem lifandi veru lýkur. Í staðinn hefst svo annars konar tilvera sem uppstoppað dýr – líf sem er frosið í ákveðna stellingu, mótað eftir vilja mannsins. Sem slíkt er það sett á safn eða á einkaheimili og verður eins konar táknmynd um allan ísbjarnastofninn, eða ímynd þeirra aðstæðna sem við mannfólkið viljum spegla okkur í.“

Þau hafa unnið náið saman í tvo áratugi og blaðamaður spyr Mark hvort þau séu aldrei ósammála. Hann segir: „Það að við erum ekki alltaf sammála krefst þess að við rökræðum, að við tökum tillit til sjónarmiða hvort annars og vinnum að því að ná samkomulagi. Þetta er áhugavert ferli þar sem gagnrýn hugsun er ríkjandi – það er samtímis ögrandi og hressandi.“

Listamennirnir verða með leiðsögn á ensku nú á sunnudag klukkan 14.00 í safninu. Þess má síðan geta að 25. september verður opnuð í Listasafni Akureyrar sýning á verkum Bryndísar og Marks, um ísbirni á Íslandi frá 1880-2016.