Á efri hæðinni í Gallery Grá­steini að Skóla­vörðu­stíg 4 sam­einast þrjár lista­konur – og vin­konur – um sýninguna Veru. Þetta eru þær Jóna Þor­valds­dóttir og systurnar Katrín Gísla­dóttir og Christine Gísla.

Sýningin Vera var opnuð í til­efni Vetrar­há­tíðar. Þó að henni standi þrjár lista­konur, Jóna Þor­valds­dóttir, Katrín Gísla­dóttir og Christine Gísla þá falla verk þeirra vel saman og njóta sín í því and­rúms­lofti sem skapast á loftinu yfir Gallery Grá­steini.

Titill Jónu er list­ljós­myndari. Hún heillast af að­ferðum sem notaðar voru á upp­hafs­tímum ljós­myndunar. „Ég tek bara myndir á filmur og fram­kalla þær sjálf. Pappírarnir og vökvarnir skipta mig miklu máli. Með því að vinna myndirnar á þennan hátt verður hver þeirra ein­stök,“ út­skýrir hún.

Jóna vinnur eins og mynd­listar­maður, eftir eigin inn­sæi og myndir hennar eru sveipaðar dul­úð. „Ég er að miðla þeim hug­hrifum sem ég verð fyrir, bæði þegar ég er úti að mynda – al­ein – og í myrkra­her­berginu,“ lýsir hún og kveðst líta á sumar myndanna sem helgi­myndir. „Þær vísa ekki endi­lega beint í raun­veru­leikann, heldur kem ég oft auga á kynja­verur, annað hvort þegar ég tek þær eða þegar ég er að vinna þær. Ég vil að myndirnar veki góðar til­finningar en kannski svo­lítið for­vitni­legar!“

Sýningin Vera er opin til 28. febrúar.
Fréttablaðið/Valli

Líkamar segja sögu

Katrín gerir ein­staka keramik¬skúlptúra með at­hyglis­verðri á­ferð. Allir eru þeir ab­strakt, þó virðist kven­líkaminn í aðal­hlut­verki, en hún segir þá geta átt við bæði kyn. Kveðst líta á líkama eins og sögu sem birti það sem þeir hafa gengið í gegnum. Þetta eru engar mjónur sem hún hefur mótað, þar er hún að deila á út­lits­dýrkunina á húmorískan hátt.

„Við konur gerum of mikið af því að bera okkur saman hver við aðra og hugsa um hvað allt yrði miklu betra ef við værum öðru vísi í laginu. Við verðum að fara að hætta þessu því þetta er svo mikill stress­valdur,“ segir hún og bætir við: „Við erum sjálfar okkar mestu and­stæðingar með allar þessar kröfur.“

Einn skúlptúrinn er með stutta, gyllta bingóvængi og hárið út í loftið. „Þessi er eins og ég er á morgnana,“ segir Katrín glað­lega. „Ef Jóni og Gunnu finnst ég skrítin þá er það þeirra mál! Ken­tárinn gerði ég í kven­manns­líki og á­kvað að nota líka hestinn því hann er tákn frelsis. Skila­boðin eru þau að standa með sjálfum sér.“

Mynda­vélin eins og pensill

Christine er með þriggja mynda seríu á gafli. Ég horfi á hana og spyr eins og sauður: Hvort eru þetta ljós­myndir eða mál­verk? „Þetta eru ljós­myndir, prentaðar á þykkan bóm­ullar­pappír, en það má kannski segja að ég noti mynda­vélina eins og pensil því ég hreyfi hana til að skapa þessar stemningar. Vinn myndirnar mest á staðnum og geri bara eitt ein­tak af hverri, bæði til að ég haldi á­fram að skapa og að hver og einn eigi ein­stakt verk,“ svarar hún.

Á hliðar­vegg er mynd af nöktum trjám. „Mér finnst ís­lenska flóran endur­spegla seiglu þjóðarinnar og þegar ég horfði á leifarnar af gamla land­náms­skóginum í Þórs­mörk, lauf­lausar, fannst mér trén vera að um­vefja hvert annað – veður­farið hafði haft á­hrif en ekki náð að brjóta þau niður.“ Hún segir allar myndirnar teknar í Þórs­mörk. „Í þeim er ég að túlka upp­lifun mína af þessu fal­lega landi sem við eigum og þessari ein­stöku birtu,“ segir hún. Bendir á að í þeim birtist það frelsi sem við höfum til að vera úti í náttúrunni og kveðst líta á það sem auð – enda heitir þriggja mynda serían Auður.

Sýningin stendur til 28. febrúar.