Hafdís Björg hefur verið öðrum góð fyrirmynd til eftirbreytni og veit að með viljann að vopni er allt hægt. Strákarnir hennar eru á aldrinum tveggja til sextán ára og það er ávallt mikið fjör á heimilinu. Hafdís útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Borgarnesi árið 2011 og eftir það hefur hún nælt sér í alls konar titla.

„Ég kláraði ÍAK-einkaþjálfarann hjá Keili, útskrifaðist sem förðunarfræðingur hjá EMM Makeup school og fór í frábært nám fyrir konur sem sjá um rekstur og stofnun smáfyrirtækja á Bifröst. Síðan fór ég að heillast af nuddnámi og byrjaði í því árið 2018. Ég kláraði SRT Soft Stretch Releash Therapy réttindin og tók kennaranámið í framhaldinu, svo byrjaði ég að kenna 2019 og hef verið að því síðan,“ segir Hafdís og er hvergi nærri hætt að bæta við sig menntun.

„Núna er ég í nuddnámi með kærastanum mínum, Magnúsi Samúelssyni, og Úrsúlu, samstarfsfélaga mínum, í Póllandi. Við förum tvisvar til þrisvar á ári til þess að taka próf og fá réttindi við ýmsar meðferðir. Námið erlendis heillar mig mjög mikið því þar getur maður valið hvert svið fyrir sig og lært það án þess að þurfa að taka áfanga sem eiga enga samleið með því sem maður vill læra. Ef maður vill læra eitthvað ákveðið þá ætti námsefnið einungis að snúast um það en ekki fara yfir í allt annað efni, mér finnst tíminn of dýrmætur til þess og vil einungis draga að mér þá reynslu sem kemur til með að nýtast mér.“

Magnús og Hafdís reka saman fyrirtækið Virago Heilsusetur. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Rekur sitt eigið fyrirtæki

Í dag rekur Hafdís líkamsmeðferðarstofuna Virago Heilsusetur ásamt Magnúsi en þau kynntust fyrir mörgum árum í gegnum fitnessið.

„Leiðir okkar lágu saman fyrir um það bil ári síðan og við höfum verið óaðskiljanleg síðan,“ segir Hafdís sem er innilega hamingjusöm með ástina sína. „Hann hefur svipaða sýn og ég svo við vorum fljót að setja okkur skýra stefnu með reksturinn og höfum verið að styrkja og byggja upp Virago eftir heimsfaraldurinn. Við erum mjög dugleg að búa okkur til verkefni og höfum mjög gaman af því að vinna saman.“

Lætur drauma sína rætast

Hafdís segir að það séu bæði kostir og gallar við að reka sitt eigið fyrirtæki en það hefur alltaf verið markmið hennar að vera með eigin rekstur.

„Ég elska að geta byggt upp mitt eigið og látið drauma mína verða að veruleika, það gefur mér svo ótrúlega mikið að hafa slíkt frelsi. Sumum finnst það bindandi en um leið og maður setur sér skýr markmið og reglur þá er þetta miklu meira frelsi en annað. Ég átti það til þegar ég byrjaði reksturinn að taka vinnuna með mér hvert sem ég fór, ef ég var ekki í Virago þá var ég við símann. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég fór í smá sjálfskoðun hvað þetta var að éta mig að innan. Ég setti mér því reglur um að vinna ekki utan vinnutíma. Ég nýt þess betur að fara í frí og eyða tímanum með fjölskyldunni og met þær stundir meira en allt.“

Huga vel að líkama og sál

„Til þess að geta gefið af sér og verið skapandi þarf maður að huga vel að líkama og sál. Sama hvar ég er stödd í lífinu þá er ég alltaf í sjálfsvinnu. Ég er algjör tilvitnana-perri, ég byrja flesta daga á því að renna í gegnum alls konar peppandi tilvísanir, hlusta á Tony Robbins og félaga og finn hvað ég fyllist af krafti. Al-Anon-samtökin eiga að sjálfsögðu stóran þátt í minni sjálfsvinnu og það hjálpar mér enn þann dag í dag að vera betri maki, móðir og bara manneskja. Við erum mjög aktív fjölskylda og elskum útivist, á veturna eyðum við mestum frítímanum okkar í Bláfjöllum á snjóbretti, reynum að vera dugleg að fara í alls konar göngur og upplifa náttúrufegurðina sem við búum við.“

Stefnir á keppni 2022

Hafdís æfir 4-6 sinnum í viku.

„Hreyfing er mín gleðipilla. Sama hversu erfiður dagurinn reynist þá er allt miklu betra eftir góða æfingu. Konni, þjálfarinn minn, og Hrönn æfingafélagi hafa verið ótrúlega þolinmóð við mig og eftir tveggja barna keppnispásu stefnum við á að byrja aftur að keppa 2022 og ég get ekki beðið. Ég dýrka þetta sport og fólkið í kringum það, þetta er ótrúlega krefjandi en gefur manni svo mikið til baka. Fólk heldur alltaf að fitness snúist bara um útlit og að svelta sig en það er svo fjarri lagi. Ég spái aldrei í því hvernig ég lít út á æfingu eða eftir hana, ég finn bara hvernig ég styrkist og hvernig andlega hliðin verður léttari. Þegar að við erum að æfa fyrir mót þá þarf mataræðið að vera 100% svo við fylgjum plani frá þjálfaranum okkar og ég borða aldrei jafn mikið og reglulega eins og ég geri fyrir mót. Mér líður ótrúlega vel því ég fæ næringuna mína og orkan að sjálfsögðu fyllist svo ég hef meira að gefa yfir daginn.“

Hafdís segist finna mun á sér þegar ekkert mót er fram undan til þess að stefna á.

„Því þá á ég það til að gleyma máltíðum og fæ því minni orku yfir daginn. Svo ég reyni alltaf að halda mér á plani.“

Hafdís setur mikla pressu á að toppa fyrra keppnisform.

„Síðasta mótið mitt var í nóvember 2016 svo tók ég smá barneignapásu og eignaðist tvo litla orkubolta með sextán mánaða millibili. Næsta mót hjá mér verður vorið 2022 og þótt það hljómi eins og það sé langt í það þá þarf að nýta tímann vel og byggja upp og móta líkamann.“

Kvöldnasl hjá Hafdísi er gjarnan kíví og lárpera saman í skál með sítrónusafa.

Matseðillinn með millimálum

Hvernig lítur matseðillinn út hjá þér á venjulegum degi?

„Eins skringilega og það hljómar þá er morgunmaturinn minn uppáhaldsmáltíðin mín en ég set 50 grömm af höfrum í pott og sýð með vatni. Bæti við frosnum bláberjum, hálfri skeið af Gainer frá Perform og eina frekar stóra matskeið af GO-ON hnetusmjöri. Blanda þessu vel saman og dreifi síðan hreinum kanil yfir, þetta gefur mér góða orku út í daginn. Plús öll vítamínin sem ég tek með morgunmatnum,“ segir Hafdís og brosir.

„Millimálið er síðan bara mjög einfalt, tvö egg og tíu möndlur. Hádegismaturinn er alltaf kjúklingur, grjón og hellingur af grænmeti en ég er með mikið æði fyrir aspas þessa dagana svo ég reyni að vera dugleg að troða honum í öll mál.

Millimálið er síðdegis eftir æfingu, þá gríp ég í Hleðslu og banana. Kvöldmaturinn er síðan bara það sem er eldað fyrir fjölskylduna en við erum öll mjög aktív og mikið íþróttafólk svo við höldum okkur frá unnum matvörum og reynum að hafa þetta frekar fjölbreytt og alltaf nóg af grænmeti.

Stundum er ég ekki í neinu stuði til þess að matreiða einhvern kvöldmat og væri bara til í að grípa með mér heim eitthvað fljótlegt eða detta í smá sukk en þá bíður mín litli fótboltasnillingurinn minn, elsti sonurinn Kristján Hjörvar, en hann er gríðarlega metnaðarfullur þegar kemur að næringu svo ég kemst ekkert upp með annað en að hafa hollt og næringarríkt fæði. Ég viðurkenni alveg að hann heldur mér vel við efnið ef ég fer að gleyma mér.“

Hafdís á það til að fá sér eitthvað fyrir svefninn en reynir þá að hafa það einfalt og hollt. „Ef ég er svöng fyrir svefn þá sker ég avókadó og kíví niður í bita og helli smá sítrónusafa yfir, það kom mér á óvart hvað svona einfalt millimál getur verið bragðgott,“ segir Hafdís að lokum og bætir því við að núna sé það bara rútínan fram undan og hellingur af skemmtilegum verkefnum svo fjölskyldunni muni ekki leiðast.